Lögfræðistofan LEX veitti innanríkisráðuneytinu, í tíð Hönnu Birnu Kristjánsdóttur fyrrverandi innanríkisráðherra, aðkeypta lögfræðiþjónustu vegna lekamálsins þar sem meðal annars var kannað hvort umfjöllun fjölmiðla gæfi tilefni til höfðunar meiðyrðamáls. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í skriflegu svari innanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Jóns Þórs Ólafssonar, þingmanns Pírata, um fjölmiðla-og lögfræðiráðgjöf vegna lekamálsins.
Ráðuneytið greiddi fyrir umrædda lögfræðiráðgjöf, sem svo leiddi til þess að Þórey Vilhjálmsdóttir, fyrrverandi aðstoðarmaður ráðherra, stefndi DV og tveimur blaðamönnum blaðsins, þeim Jóni Bjarka Magnússyni og Jóhanni Páli Jóhannssyni, fyrir meiðyrði. Þórey stefndi umræddum vegna fréttar þar sem fullyrt var að hún væri svokallaður starfsmaður B og hefði réttarstöðu grunaðs.
Í áðurnefndri fyrirspurn þingmanns Pírata er spurt hvað hafi falist í þeirri aðkeyptu lögfræðiráðgjöf sem LEX veitti innanríkisráðuneytinu. Í svari ráðuneytisins við þeirri spurningu segir: „Ráðgjöf LEX var veitt ráðuneytinu vegna kæru á hendur ráðuneytinu og ráðherra um meðferð persónuupplýsinga. Ráðgjöfin var bæði munnleg og skrifleg. Ráðgjöfin sneri annars vegar að frumgreiningu LEX á því hvort umfjöllun fjölmiðla gæfi tilefni til höfðunar meiðyrðamáls. Í kjölfarið tók aðstoðarmaður ráðherra ákvörðun um höfðun meiðyrðamáls og bar sjálfur kostnað af því máli. Hins vegar sneri ráðgjöfin að réttarstöðu sakborninga og vitna á rannsóknarstigi máls samkvæmt lögum um meðferð sakamála, m.a. um skyldu til að mæta til skýrslutöku, rétt til að hafa lögmann viðstaddan, aðgang að gögnum og skyldu til að svara spurningum.“
Kostnaður ráðuneytisins vegna lögfræðiráðgjafar í tengslum við lekamálið hljóðaði upp á tæpar 860 þúsund krónur, eins og Kjarninn greindi fyrstur fjölmiðla frá í mars.