Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi var greint frá því að Landhelgisgæslan hefði komið sér í ónauðsynleg vandræði gagnvart Tollgæslunni, með leynilegum innflutningi á hríðskotabyssum frá Noregi. Í fréttinni var sagt að svo virtist sem Tollgæslan hafi algjörlega verið sniðgengin við innflutninginn á byssunum, sem hafi orðið til þess að byssurnar voru innsiglaðar af Tollinum í síðustu viku.
Í fréttatilkynningu frá Landhelgisgæslunni er öllu tali um að leynd hafi hvílt yfir innflutningi vopnanna gagnvart tollgæsluyfirvöldum vísað á bug. Þvert á móti hafi tollverðir framkvæmt tollskoðun á vopnunum við komu þeirra til landsins.
Þá segir í fréttatilkynningunni að vopnin hafi enn ekki verið tollaafgreidd inn í landið, og fullt samráð verði haft við Tollstjóra um þá afgreiðslu.