Frá vorinu 2020 og fram á síðastliðið haust greiddu sjóðsfélagar lífeyrissjóða upp 112 milljarða króna af verðtryggðum lánum umfram það sem þeir tóku af slíkum. Síðustu tvo mánuði hafa þeir tekið fleiri slík lán en þeir hafa borgað upp.
Hrein ný útlán lífeyrissjóða landsins til sjóðsfélaga sinna vegna íbúðarkaupa námu 4,9 milljörðum króna í nóvember síðastliðnum. Þar af lánuðu sjóðirnir tæplega 1,2 milljarða króna í verðtryggð lán. Það er hæsta útlánaupphæð sem þeir hafa lánað í slíkum lánum innan mánaðar frá mars 2020, eða við upphaf kórónuveirufaraldursins.
Nóvember var annar mánuðurinn í röð sem verðtryggð útlán lífeyrissjóðanna fór yfir einn milljarð króna. Þar áður höfðu ný verðtryggð útlán, að frádregnum upp- og umframgreiðslum, verið neikvæð í 26 mánuði samfleytt, eða síðan í maí 2020. Samtals höfðu lántakendur þá greitt upp 112,1 milljarða króna af verðtryggðum lánum umfram það sem þeir tóku að láni.
Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Seðlabanka Íslands um stöðu lífeyrissjóða landsins.
Staðan breyst hratt
Ástæða þess að verðtryggð lán féllu úr tísku er tiltölulega einföld: Frá byrjun árs 2019 hefur verið hagkvæmara að taka óverðtryggð lán á Íslandi en verðtryggð. Lág verðbólga framan af tímabilinu samhliða því að vextir voru lækkaðir skarpt bjó til þessa stöðu. Verðtryggðu lánin hafa þó alltaf þann kost fyrir suma að greiðslubyrði af þeim er lægri, sem gerir þau eftirsóknarverðari fyrir fólk með lægri tekjur til að það standist greiðslumat lánveitenda. Á móti þarf sá hópur að sætta sig við að verðbætur vegna verðbólgu leggjast á höfuðstól lánsins. Fyrir vikið greiðist höfuðstólinn mun hægar niður og í mikilli verðbólgu getur hann hækkað skarpt.
Þessi þróun leiddi af sér miklar hækkanir á íbúðaverði. Á höfuðborgarsvæðinu hefur það hækkað um meira en 50 prósent frá byrjun árs 2020.
Nú er staðan önnur. Verðbólgan er 9,6 prósent. Stýrivextir eru komnir í sex prósent sem skilað hefur óverðtryggðum íbúðalánavöxtum í að fara að nálgast átta prósent að jafnaði og óverðtryggðir vextir stærstu bankanna þriggja, sem halda á 72 prósent af útistandandi íbúðalánum, hafa ekki verið jafn háir síðan 2010.
Í nýjustu mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) kemur fram að ef verðbólguspá Seðlabanka Íslands, sem spáir því að hún muni hjaðna niður í 4,4 prósent næsta árið, gengur eftir og vextir á húsnæðislánum haldist óbreyttir þá „borgar sig nú frekar að taka verðtryggt lán en óverðtryggt og hefur sú verið raunin frá því í júní síðastliðnum.“
Hins vegar eru óverðtryggð lán enn hagkvæmari ef verðbólga á eftir að hjaðna hægar en í spánni.
Ekki ráðlegging
HMS tekur sérstaklega fram að í þessu felist ekki ráðlegging um lántökur. Það geti borgað sig að taka óhagkvæmara lán þegar tekið sé tillit til annarra þátta. Þar er sérstaklega nefnt að verðtryggð lán geri fólki kleift að kaupa dýrari íbúðir en óverðtryggð. „Meiri eignamyndun vegna hækkandi íbúðaverðs getur vegið á móti hærri fjármagnskostnaði. Þetta á sérstaklega við um fólk sem hefur tök á að kaupa sér íbúð með verðtryggðu láni en ekki með óverðtryggðu því það ræður ekki við greiðslubyrðina.“
Í ágúst gerðust þau tíðindi að að hrein ný verðtryggð útlán voru jákvæð í fyrsta sinn síðan í byrjun árs 2020. Það þýðir að útlán voru hærri en uppgreiðslur og óreglulegar innborganir. Í skýrslunni kemur fram að verðtryggð lán hafi unnið hratt á síðan þá. Í október voru þau tæplega 47 prósent allra nýrra útlána og því nokkurn veginn á pari við óverðtryggð lán í vinsældum.
Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands hafði lýst yfir áhyggjum af þessari mögulegu þróun í júlí síðastliðnum. Í fundargerð hennar frá þeim tíma sagði að nefndin teldi þá auknar líkur á að heimilin væru að leita í verðtryggð lán til að lækka greiðslubyrði til skamms tíma. „Töldu nefndarmenn að sú þróun gæti verið varasöm. [...] Verðbólgan legðist beint ofan á höfuðstól lánanna sem gæti dregið verulega úr viðnámsþrótti skuldsettra lántakenda.“
Verðtryggð lán enn meirihluti lána
Þegar vextir voru í sögulegu lágmarki á Íslandi á árunum 2019 og fram til maímánaðar í fyrra, þegar stýrivextir stóðu í 0,75 prósent, flykktust heimili landsins í óverðtryggð lán.
Það hefur lækkað hlutdeild verðtryggðra lána af útistandandandi lánum en samkvæmt nýjustu útgáfu ritsins Peningamál, sem Seðlabanki Íslands heldur úti, er hún samt sem áður en um 56 prósent. Meirihluti útistandandi lána er því verðtryggður.
Stór hluti heimila með verulega aukinn kostnað
Um fjórðungur allra íbúðalána eru óverðtryggð og á breytilegum vöxtum. Sá hópur tekur því á sig þessar vaxtahækkanir af fullum þunga.
Í skýrslu HMS kemur fram að greiðslubyrði óverðtryggðra lána væri 63.600 krónur fyrir hverjar tíu milljónir króna sem teknar eru að láni. Það þýðir að fyrir þann sem er með 50 milljón króna lán er greiðslubyrðin á mánuði 318.000 krónur. Í maí í fyrra, þegar stýrivextir voru í sögulegu lágmarki, var greiðslubyrði af láni upp á sömu upphæð 188.500 krónur. Hún hefur því hækkað um 129.500 krónur á einu og hálfu ári, eða um 69 prósent. Það er aukin greiðslubyrði upp á rúmlega 1,5 milljónir króna á ári.
Ef horft er styttra aftur í tímann, til maí 2022, hefur greiðslubyrðin af ofangreindu láni hækkað um 89.500 krónur á mánuði, eða um 39 prósent.
Ofan á þetta eru 4.451 heimili með óverðtryggð lán á föstum vöxtum sem komi til endurskoðunar næsta árið. Fjöldi heimila lýkur líka fastvaxtatímabili sínu á árinu 2024 en alls koma 340 milljarðar króna í óverðtryggðum íbúðalánum til vaxtaendurskoðunar á þessum tveimur árum. Á árinu 2025 koma svo lán upp á 250 milljarða króna í viðbót til endurskoðunar, en þorri þeirra lána eru óverðtryggð.
Því er ljóst að stór hluti heimila í landinu annað hvort býr við verulega aukinn húsnæðiskostnað eða sér fram á verulega aukningu.
Þriðjungur nær ekki endum saman
Þessi staða kom skýrt fram í nýlegri könnun Maskínu sem fréttastofa Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis greindi frá á gamlársdag. Í henni sögðust 29,4 prósent landsmanna annað hvort ekki ná endum saman og vera að safna skuldum (7,3 prósent) eða hafa átt í erfiðleikum með að ná endum saman undanfarið en væru þó ekki farin að safna skuldum (22,1 prósent). Rúmur þriðjungur þjóðarinnar, 35,1 prósent nær endum saman um hver mánaðamót en lítið umfram það. Sama hlutfall nær mjög vel endum saman og getur sparað um flest mánaðamót.
Við blasir að tekjulægstu hóparnir eru þeir sem erfiðast eiga með að ná endum saman. Í lok nóvember var greint frá því að 80 hafi sótt um aðstoð vegna fjárhagsvanda til umboðsmanns skuldara í mánuðinum á undan, sem er um þriðjungi yfir meðaltali mánaðanna á undan. Í frétt RÚV um málið kom meðal annars fram að öryrkjar sem leitað höfðu til umboðsmanns skuldara á fyrstu rúmu tíu mánuðum síðasta árs voru að meðaltali 3500 krónur í mínus eftir að hafa greitt öll föst útgjöld.