Það hafa verið miklir umbrotstímar í íslensku samfélagi undanfarin ár. Margt hefur áunnist í baráttunni við að endurreisa þar og efla. Í dag er til að mynda góður hagvöxtur, lítil verðbólga og lítið atvinnuleysi. Ákveðnir atvinnuvegir, sér í lagi sjávarútvegur og ferðaþjónusta, eru í miklum sóknarham.
Ísland stendur hins vegar enn frammi fyrir risavöxnum vandamálum sem nauðsynlegt verður að takast á við í allra nánustu framtíð. Þeirri baráttu verður ekki frestað mikið lengur. Á þessum tímamótum Kjarnans þótti ritstjórn hans rétt að útlista þau fjögur helstu. Þau eru glíman við fjármagnshöft, breytingar á lífeyrissjóðakerfinu, skjaldborg um heilbrigðiskerfið og staða Íslands í alþjóðasamfélaginu. Hér að neðan verður fjallað um stöðu lífeyriskerfisins.
Sameina þarf lífeyriskerfin
Í dag er lágmarkseftirlaunalífeyrir 219 þúsund krónur. Til að setja þá upphæð í samhengi er lágmarksframfærsluviðmið velferðarráðuneytisins 290 þúsund krónur. Lágmarkseftirlaunalífeyririnn er því aðeins 75 prósent af þeirri upphæð sem þarf til að lifa af.
Þrátt fyrir að íslenska lífeyrissjóðakerfið eigi tæpa 2.750 milljarða króna er það langt frá því að standa undir þeim skuldbindingum sem sjóðirnir hafa lofað að standa undir. Til þess vantar tæpa 900 milljarða króna, að mati Björns Z. Arngrímssonar, sérfræðings hjá Fjármálaeftirlitinu. Í grein sem hann skrifaði í fyrrahaust segir að skuldbindingar lífeyrissjóðanna séu mögulega vanmetnar vegna þess að þær taki ekki nægilegt tillit til þess að Íslendingar séu alltaf að eldast.
Ríkið borgar fullt
Þorri þeirrar upphæðar sem vantar upp á er vegna halla á stærsta lífeyrissjóði landsins, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (LSR). Halli hans er að minnsta kosti 450 milljarðar króna. Sá sem „skuldar“ sjóðnum þessa peninga er íslenska ríkið. Ríkið þyrfti að borga yfir 30 milljarða króna á ári í 20 ár til að borga þessa skuld.
Margir virðast halda að lífeyrissjóðirnir standi sjálfir undir öllum þeim greiðslum sem þeir greiða í lífeyri. Því fer fjarri. Íslenska ríkið tryggir ákveðna lágmarkslífeyrisgreiðslu, áðurnefndar 219 þúsund krónur á mánuði. Ef lífeyrisjóðirnir borga ekki þá upphæð mánaðarlega til sinna skjólstæðinga þarf ríkið að grípa inn í og brúa bilið. Árlegar greiðslur vegna þessa eru nú um 40 milljarðar króna og hafa hækkað um 15 milljarða króna frá árinu 2008. Ríkið greiðir því um helming útgreidds lífeyris á hverju ári.
Gömlum Íslendingum fjölgar mjög hratt
Vandi íslenska lífeyrissjóðakerfisins er eitt mest aðkallandi vandamál sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir. Fjöldi Íslendinga sem eru yfir 67 ára aldri mun þrefaldast á næstu 45 árum. Hagstofa Íslands spáir því að árið 2060 verði þeir 97 þúsund. Til viðbótar við þær háu upphæðir sem vantar inn í grunnlífeyriskerfi treystir það líka á að fólk leggi fyrir annan sparnað til að komast af á efri árum, enda greiða lífeyrissjóðirnir og Tryggingastofnun ríkisins einungis um 40 prósent af launum í lífeyri.
Þorri þess viðbótarsparnaðar hefur verið í gegnum séreignarlífeyrissparnaðarkerfið. Síðustu tvær ríkisstjórnir landsins hafa hins vegar opnað fyrir það að landsmenn nýti séreignarsparnaðinn sinn í annað en að spara fyrir ævikvöldið. Fyrst var fólki einfaldlega leyft að taka peningana út, borga af þeim skatta og eyða þeim í það sem því sýndist. Um 100 milljarðar króna höfðu flætt úr séreignarkerfinu um síðustu áramót vegna þessa. Sitjandi ríkisstjórn tilkynnti síðan að hún ætlaði að heimila skattfrjálsa nýtingu á séreignarlífeyrisgreiðslum til niðurgreiðslu á höfuðstól íbúðalána. Á næstu fjórum árum verður umfang þeirrar aðgerðar um 70 milljarðar króna. Verði hún framlengd, eins og pólitískur vilji er til, mun hún líklega ganga mjög nærri séreignarkerfinu.
Stjórnvöld að vakna
Vandamálið er því afar stórt og stjórnvöld vita af því. Að takast á við það með þeirri alvöru sem vandamálið útheimtir hefur þó ítrekað verið frestað á undanförnum árum. Nú virðist sem smávægileg hreyfing sé á málinu og að það komist mögulega á dagskrá í haust. Nefnd um málefni lífeyrissjóða hefur lagt til að opinbera kerfinu, þar sem ríkið er í ábyrgðum fyrir lífeyrissjóðina, verði breytt í frjálst kerfi líkt því sem aðrir lífeyrissjóðir starfa í. Auk þess virðist vera nokkuð mikill samtaktur um nauðsyn þess að hækka lífeyrisaldur upp í 70 ár hið minnsta hjá öllum í nýja kerfinu.
Til viðbótar þyrfti að hækka iðgjöld, það hlutfall launa sem hver launamaður er lögbundinn til að greiða í lífeyrissjóð mánaðarlega, umtalsvert. Iðgjöld í almenna kerfinu í dag eru 12,5 prósent en tillögur miða við að þau verði hækkuð upp í 15,5 prósent.
Það liggur mikið á að taka stórar ákvarðanir varðandi þetta mál. Hrafn Magnússon, sem var framkvæmdastjóri Landssambands lífeyrissjóða í vel á fjóra áratugi, skrifaði grein í Kjarnann í október 2013. Á meðal þess sem hann fjallaði um var sá halli sem er á stærsta lífeyrissjóði landsins, LSR. „Þetta er grafalvarleg staða sem versnar með hverju ári sem líður ef ekki er gripið til viðeigandi ráðstafana. Hallinn á LSR og lífeyrissjóðum sveitarfélaga er áhyggjuefni fyrir alla þjóðina því með þessu ástandi er verið að velta skattbyrðinni yfir á komandi kynslóðir,“ sagði Hrafn í greininni.
Þessi grein er hluti af mun stærri umfjöllun um helstu áskoranir sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir sem birtist í Kjarnanum í síðustu viku.