„Félagar í trúnaðarráði Eflingar hittust í gær á góðum fundi. Þar ræddum við margt og mikið, meðal annars komandi baráttu. En við fundum okkur líka tíma til að fagna hinum nýlega auðsýnda áhuga þingmanna Sjálfstæðisflokksins á lýðræði og mannréttindum á vinnumarkaðnum okkar.“
Á þessum orðum hefst færsla Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, á Facebook. Í ályktun sem samþykkt var á fundi trúnaðarráðsins segir að hinn nýfundni áhugi Sjálfstæðisflokksins á málefninu birtist í frumvarpi þingmanna flokksins um félagafrelsi á vinnumarkaði.
„Trúnaðarráð hvetur þingmenn Sjálfstæðisflokksins til að kynna sér starfsemi íslenska lífeyrissjóðakerfisins,“ segir ennfremur í ályktuninni. Það kerfi byggi á skylduaðild, þar sem lög krefjist þess að minnst 12 prósent af öllum launum verkafólks séu greidd í lífeyrissjóðsiðgjald. Getur það varðað sektum eða fangelsi að greiða ekki iðgjaldið.
Svo segir: „Þegar iðgjaldið hefur verið greitt fellur það undir stjórn einstakra lífeyrissjóða, þar sem lýðræðislegt aðhald sjóðfélaga er ekkert. Þeir fá tækifæri til að kjósa, með milligöngu fulltrúaráðs, helming stjórnarmanna en hinn helmingurinn er valinn með geðþótta íslenskra fyrirtækjaeigenda. Með þessu fyrirkomulagi er tryggt að sjóðfélagar séu áhrifalausir um ráðstöfun þeirra fjármuna sem þeir eru þó skikkaðir með lögum til að greiða. Um er að ræða augljóst brot gegn félagafrelsi, mannréttindum og grunnreglum lýðræðisins.“
Trúnaðarráð Eflingar segist treysta því að þingmenn Sjálfstæðisflokksins muni á næstunni leggja fram frumvarp þar sem skylduaðild að lífeyrissjóðum verði annað hvort afnumin eða skilyrt af eðlilegu lýðræði við meðhöndlun þeirra fjármuna sem sjóðfélagar eru skikkaðir með lögum til að greiða til þeirra.
Sólveig Anna skrifar í færslu sinni að fulltrúar trúnaðarráðs Eflingar hafi á fundum sínum síðustu misseri margoft furðað sig á „hinu stórkostlega íslenska lífeyrissjóðakerfi. Sjóðirnir henda peningum okkar í sukk án þess að nokkur beri ábyrgð á því, og fjárfesta líkt og enginn sé morgundagur í fyrirtækjum sem ráðast á grunnréttindi okkar. Við erum skikkuð til að borga í þessa sjóði, en höfum samt engin áhrif á þá. Er það ekki merkilegt?“