Framtakssjóðurinn EDDA, sem er rekinn af Virðingu en er í eigu lífeyrissjóða og annarra fagfjárfesta, hefur keypt fjórðungshlut í Domíno‘s Pizza á Íslandi. Eða réttara sagt í Pizza-Pizza ehf., sérleyfishafa Domino‘s Pizza International á Íslandi.
EDDA er fimm milljarða króna framtakssjóður sem fjárfestir í óskráðum félögum með trausta rekstrarsögu. Sjóðurinn var stofnaður árið 2013 og á einnig 40 prósent hlut í öryggisfyrirtækinu Securitas. Samkvæmt síðasta birta ársreikningi Eddu eru Lífeyrissjóður verslunarmanna (17,5 prósent) og Gildi lífeyrissjóður (13,2 prósent) tveir stærstu eigendur sjóðsins.
Aðrir eigendur Pizza-Pizza ehf. eru Birgir Þ. Bieltvedt stjórnarformaður félagsins og eiginkona hans Eygló Björk Kjartansdóttir, sem einnig situr í stjórn Pizza-Pizza ehf., Högni Sigurðsson, Birgir Ö. Birgisson framkvæmdastjóri og nokkrir aðrir lykilstjórnendur Domino‘s á Íslandi. Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins og sérleyfisveitanda Domino´s.
Kaupverðið er ekki gefið upp.
Notað til að fjármagna útrás í Noregi og Svíþjóð
Í tilkynningu vegna þessa kemur fram að rekstur Domino´s hafi gengið mjög vel á undanfrönum árum, en fyrirtækið rekur í dag 19 verslanir á Íslandi. Um 600 starfsmenn starfa hjá Domino‘s hér á landi, ríflega helmingur þeirra í hlutastarfi. "Fyrirtækið hefur verið framarlega í nýtingu tækni og náð að fjölga mjög pöntunum í gegnum netið og Domino‘s farsíma-appið. Þá hafa nýjungar á matseðli fyrirtækisins notið mikilla vinsælda og hefur markaðshlutdeild Domino´s hér á landi stóraukist í tíð núverandi stjórnenda. Til marks um þennan góða árangur eru fjölmörg verðlaun sem fyrirtækið hefur hlotið frá Domino’s í Bandaríkjunum fyrir góðan rekstur og sölumet. Einnig hefur fyrirtækið hlotið ýmsar innlendar viðurkenningar fyrir markaðsstarf og var m.a. útnefnt markaðsfyrirtæki ársins fyrir árið 2013.
Domino‘s á Íslandi á meirihluta í sérleyfishafa Domino‘s í Noregi en þar hafa á undanförnum mánuðum verið opnaðir þrír staðir í samstarfi við norska meðeigendur sem notið hafa mikilla vinsælda. Aðkoma EDDU verður m.a. nýtt til að fjármagna frekari vöxt í Noregi auk þess að undirbúa opnun Domino‘s staða í Svíþjóð en félagið er einnig með sérleyfi fyrir Domino‘s í Svíþjóð."