Breytilegir vexti á verðtryggðum sjóðfélagslánum Lífeyrissjóðs verslunarmanna hækka úr 3,20 prósent í 3,35 prósent frá og með morgundeginum. Þegar hefur verið tilkynnt um breytinguna á heimasíðu sjóðsins. Lífeyrissjóðurinn tilkynnti um það síðastliðinn þriðjudag að hann byði upp á mun lægri vexti á húsnæðislánum en hann hefði áður gert. Auk þess var lánshlutfall hækkað í 75 prósent af verði húsnæðis, sem er hærra hlutfall en aðrir lífeyrissjóðir gera. Vextir sjóðsins eru auk þess mun lægri en þeir vextir sem Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn bjóða viðskiptavinum sínum upp á.
Breytingarnar eru í takt við það sem tilgreint er á heimasíðu sjóðsins. Þar segir: "Breytilegir vextir taka breytingum 15. hvers mánaðar og getur greiðslubyrði þess vegna sveiflast. Breytilegir vextir eru 0,75 prósent hærri en meðalávöxtun í síðasta mánuði á flokki íbúðabréfa (HFF150434) skráður í kauphöll Nasdaq OMX.“
Enn mun lægri en bankarnir
Óverðtryggðir vextir, bundir í þrjú ár, verða áfram 6,97 prósent hjá lífeyrissjóðnum á meðan að þeir eru 7,15 til 7,4 prósent hjá stóru bönkunum þremur. Þar munar 2,6 til 6,2 prósent. Fastir verðtryggðir vextir hjá sjóðnum eru 3,6 prósent á meðan að þeir eru 3,85 til 4,3 prósent hjá bönkunum. Þar munar 6,9 til 19,4 prósent.
En mest af öllu munaði á breytilegum verðtryggðum vöxtum. Þar bauð Lífeyrissjóður verslunarmanna upp á 3,2 prósent vexti á meðan að vextir hjá Arion banka og Landsbankanum eru 3,65 til 3,85 prósent. Þar munaði 14 til 20,3 prósent á vöxtunum. Íslandsbanki býður ekki upp á breytilega verðtryggða vexti.
Nú, níu dögum eftir að Lífeyrissjóður verslunarmanna tilkynnti um lánabreytingarnar sínar, munu breytilegu verðtryggðu vextirnir hækka upp í 3,35 prósent. Þeir verða samt mun lægri en þeir breytilegu verðtryggðu vextir sem viðskiptabankarnir bjóða upp á en sömu vextir og ýmsir lífeyrissjóðir bjóða upp á, t.d. Gildi. Þar er veðsetningarhlutfallið hins vegar 65 prósent.
Kjarninn fjallaði ítarlega um ný lánakjör Lífeyrissjóðs verslunarmanna í fréttaskýringu í lok síðustu viku.