Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur ákveðið að hækka áunnin lífeyrisréttindi í sameignardeild sjóðsins um tíu prósent, sem leiðir til samsvarandi hækkunar lífeyrisgreiðslna. Hækkunin miðast við síðastliðin áramót og er tilkomin vegna góðrar ávöxtunar eigna undanfarin ár sem hefur styrkt tryggingafræðilega stöðu sjóðsins. Meðalraunávöxtun eigna síðustu 10 ára er 6,7 prósent, síðustu 20 ára 4,5 prósent og síðustu 30 ára 5,4 prósent.
Sjóðurinn mun greiða í eingreiðslu út uppsafnaða hækkun á árinu og mun sú greiðsla gerast í nóvember. Hún nær til um tuttugu og eitt þúsund sjóðfélaga, nemur rúmum 1,6 milljörðum króna eða að meðaltali um 76 þúsund krónum fyrir hvern lífeyrisþega.
Frá þessu er greint í tilkynningu frá sjóðnum. Þar segir enn fremur að sjóðsfélagar geti séð áhrif réttindahækkunarinnar á sjóðfélagavef sínum. Sjóðfélagar sem fá einnig greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins eru hvattir til þess að huga að því hvort tilefni sé til að uppfæra tekjuáætlun hjá stofnuninni.
Frá lokum ágústmánaðar í fyrra hafa eignir sjóðanna aukist um 910 milljarða króna. Þar af hafa eignir þeirra innanlands aukist um 504 milljarða króna og þar vigtar hlutafjáreign langmest. Íslenskir lífeyrissjóðir eru saman langstærstu eigendur þeirra félaga sem skráð eru á íslenskan hlutabréfamarkað. Saman eiga þeir, beint og óbeint í gegnum hlutdeildarskírteini í sjóðum, um helming allra skráðra bréfa.
Erlendar eignir íslensku lífeyrissjóðanna hafa líka bólgnað út á tímum kórónuveirunnar. Virði þeirra er nú 2.257,6 milljarðar króna og hefur aukist um 406,3 milljarða króna milli ára. Nánast öll erlend eign lífeyrissjóða, alls 2.196 milljarðar króna, er bundin í hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum, og því kemur ekki á óvart að sá eignarflokkur sé ábyrgur fyrir nær allri virðisaukningunni sem orðið hefur á erlendum eignum íslensku lífeyrissjóðanna frá því í ágúst í fyrra, eða 94 prósent hennar.