Lífeyrissjóður verzlunarmanna, næst stærsti lífeyrissjóður landsins, ákvað í síðustu viku að stofna nýjan lánaflokk sjóðsfélagalána og lánar nú óverðtryggð lán til íbúðarkaupa með breytilegum vöxtum. Um er að ræða þá tegund lána sem notið hefur mestra vinsælda hjá íslenskum húsnæðiskaupendum síðastliðin ár.
Samkvæmt frétt á heimasíðu sjóðsins hefur verið boðið upp á lánin frá því í byrjun viku og þau bera 3,85 prósent vexti. Lífeyrissjóður verzlunarmanna lánar fyrir 70 prósent af kaupverði húsnæðis og því eru lánin með sömu kjör og næst ódýrustu óverðtryggðu íbúðalán íslenskra banka á breytilegum vöxtum, en Landsbankinn rukkar 3,85 prósent vexti á sín lán. Eini bankinn sem býður upp á skaplegri vexti á slíku láni er Íslandsbanki, sem lánar fyrir 70 prósent af kaupverði á 3,8 prósent vöxtum. Arion banki býður svo breytilega óverðtryggða vexti á 3,89 prósent kjörum.
Gildi, þriðji stærsti lífeyrissjóður landsins, býður bestu óverðtryggðu kjörin sem stendur, 3,45 prósent vexti, og Brú lífeyrissjóður býður upp á 3,8 prósent vexti. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), stærsti lífeyrissjóður landsins, er því eini af stærstu sjóðunum sem býður ekki upp á óverðtryggða breytilega vexti á sjóðsfélagslánum sem stendur. Saman eiga þessir þrír sjóðir: LSR, Lífeyrissjóður verzlunarmanna og Gildi rúmlega helming af allri hreinni eign íslenska lífeyrissjóðakerfisins.
Bankarnir hafa sankað að sér viðskiptum
Um mitt þetta ár voru bankarnir komnir með 67 prósent af öllum útistandandi lánum til íbúðarkaupa hérlendis. Markaðshlutdeild þeirra hafði stóraukist á skömmum tíma, sérstaklega eftir að stýrivextir voru lækkaðir niður í 0,75 prósent og langhagstæðast var fyrir lántakendur að taka óverðtryggð lán hjá þeim. Til samanburðar var hlutdeild bankanna af íbúðalánum á Íslandi 55 prósent í lok apríl í fyrra.
Á sama tíma hafa ný útlán lífeyrissjóða dregist saman um 63 milljarða króna, að frádregnum upp- og umframgreiðslum.
Hlutfall óverðtryggðra lána af heildaríbúðalánum til heimilanna var 27,5 prósent í janúar í fyrra. Í ágúst síðastliðnum var það hlutfall hins vegar komið upp í 50,2 prósent. Í nýlegri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) um íbúðamarkaðinn er bent á að eftir því sem hlutdeild óverðtryggðra íbúðalána eykst sé viðbúið að miðlun peningastefnu Seðlabankans verði virkari. „Breytingar á stýrivöxtum munu hafa meiri áhrif á hagkerfið í heild þegar stærra hlutfall af heildaríbúðalánum til heimilanna eru óverðtryggð þar sem óverðtryggðir vextir eru næmari fyrir stýrivaxtabreytingum. Þessi þróun getur leitt til þess að Seðlabankinn þurfi ekki að hækka vexti eins mikið til að slá á eftirspurn og ef hlutfall óverðtryggðra lána væri lægra.“
Sóknin í fastvaxtalánin eftir að vextir tóku að hækka er líka nokkuð skýr í tölunum sem HMS birtir í skýrslunni sinni. Þar kemur fram að í ágúst hafi 61 prósent af nýjum óverðtryggðum útlánum innlánsstofnana til heimilanna verið fastvaxtalán á meðan 39 prósent voru á breytilegum vöxtum. „Aukning á hlutfalli fastvaxtalána bendir til þess að heimilin búist við töluverðum vaxtahækkunum þar sem bilið á milli fastra vaxta og breytilegra er breitt.“