Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LV) segir frá því í dag að sjóðurinn hafi sett alls 138 fyrirtæki á útilokunarlista og að þegar hafi verið seldar eignir að virði rúmlega þriggja milljarða króna úr eignasöfnum sjóðsins vegna útilokunarinnar.
Ástæðan fyrir útilokuninni er sú að starfsemi fyrirtækjanna uppfyllir ekki skilyrði um sjálfbærni og ábyrgar fjárfestingar, samkvæmt nýrri heildarstefnu stjórnar LV um ábyrgar fjárfestingar.
Listi yfir fyrirtækin 138 hefur verið birtur á vef sjóðsins, en þar er ekki eitt einasta íslenskt fyrirtæki að finna.
Þar má hinsvegar finna flugvéla- og hergagnaframleiðendur, tóbaksframleiðendur, fyrirtæki sem stunda námuvinnslu og framleiðslu jarðefnaeldnseytis og fleiri – mörg hver heimsþekkt fyrirtæki á sínu sviði.
Þar má til dæmis finna bandaríska flugvélaframleiðandann Boeing, sem er á útilokunarlistanum vegna framleiðslu fyrirtækisins á svokölluðum klasasprengjum, hollenska félagið Royal Dutch Shell, sem er á listanum vegna brots á alþjóðasamningum og flugvélaframleiðandann Airbus, sem er á lista vegna aðkomu að framleiðslu kjarnorkuvopna.
Horft til leiðandi sjóða á Norðurlöndum
„Stefna um útilokun er leiðarljós við stýringu eignasafna LV. Útilokunin varðar fyrirtæki sem framleiða tilteknar vörur eða teljast brotleg við tiltekin alþjóðleg viðmið um mannréttindi og viðskiptasiðferði,“ segir í fréttatilkynningu frá sjóðnum í dag, en sjóðurinn segir litið til fyrirmynda frá leiðandi lífeyrissjóðum á Norðurlöndum hvað þetta varðar.
Í tilkynningu segir að á grundvelli stefnunnar séu 88 fyrirtæki sem vinna kol, olíusand og olíuleir, 13 fyrirtæki í tóbaksframleiðslu, 22 fyrirtæki sem framleiða umdeild vopn (e. controversial weapons) og 15 fyrirtæki sem teljast brjóta gegn „UN Global Compact“ komin á útilokunarlistann.
Jafnframt segir frá því að innleiðing stefnunnar muni taka tíma og að því verði „enn um sinn að finna fyrirtæki í eignasöfnum LV sem eru á útilokunarlista.“ Ástæðan er sögð sú að enn sem komið er hafi sjóðurinn „takmarkaða möguleika til að tjá skoðanir um útilokun þegar sjóðurinn fjárfestir í erlendum eignum s.s. hlutabréfasjóðum.“
Útilokun fjárfestinga í þessum 138 fyrirtækjum er sögð hluti af „víðtækri stefnumótun stjórnar sjóðsins varðandi ábyrgar fjárfestingar“ og að afrakstur af því starfi sé meðal annars tvær nýjar stefnur sem styðja eigi við ábyrga langtímaávöxtun eigna, sjálfbærni og aðgerðir í loftslagsmálum.