Heiðar Már Guðjónsson, hagfræðingur og fjárfestir, spyr í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag hvers vegna Seðlabanki Íslands haldi lífskjörum almennings niðri. Í greininni segir hann bankann stöðugt hafa hert á höftunum frá því að þau voru sett á haustið 2008. „Það má líkja málflutningi bankans við Stóra bróður í bókinni 1984 þegar hann herðir höftin en segir það gert til þess að losa þau! Seðlabankinn er þannig í dag búinn að festa gjaldmiðilinn við um 150 krónur á evruna og tekur allt innstreymi til sín en leyfir krónunni ekki að styrkjast í takt við aukinn hagvöxt,“ segir Heiðar í greininni.
„Við þær aðstæður sem nú eru alþjóðlegar, þar sem íslenska hagkerfið vex langt umfram hið evrópska, er frá- leitt að festa gengi gjaldmiðlanna. Seðlabankinn reynir svo að hamla þeim þrýstingi sem myndast, þegar gengi gjaldmiðilsins er of lágt skráð og hagvöxtur er góður, með því að hækka vexti.“ Heiðar segir að þeir sem fylgst hafi með síðustu átján ár viti af sárri reynslu að lágt gengi með háum vöxtum kalli á innflæði erlendra spákaupmanna.
Seðlabankinn hækkaði í gær stýrivexti um 0,5 prósentur. Heiðar telur að ef Seðlabankinn héldi ekki aftur af styrkingu krónunnar með inngripum þá þyrfti hann ekki að hækka vextina. „Með því myndi hagur almennings á Íslandi batna og hvati erlendra spákaupmanna til stöðutöku í krónunni minnka að sama skapi. Seðlabanki Íslands ætti nú að standa undir nafni og hætta að hygla erlendum spákaupmönnum á kostnað íslensks almennings,“ segir í lok greinarinnar.