Áætlað er að kostnaður vegna málareksturs Lilju D. Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, gegn Hafdísi Helgu Ólafsdóttur, skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu, verði um tíu milljónir króna. Hafdís Helga sótti um stöðu ráðuneytisstjóra í mennta- og menningarmálaráðuneytinu haustið 2019 en var ekki metin ein af fjórum hæfustu umsækjendunum. Páll Magnússon, fyrrverandi bæjarritari í Kópavogi, var skipaður í embættið. Hafdís Helga kærði ráðninguna til kærunefndar jafnréttismála og vann. Lilja stefndi henni í kjölfarið en héraðsdómur hafnaði málatilbúnaðinum í mars síðastliðnum. Lilja ákvað samdægurs að áfrýja niðurstöðunni til Landsréttar.
Til viðbótar við ofangreindan kostnað vegna málarekstursins kostaði það ríkissjóð fimm milljónir króna að skipa í embættið, en uppistaðan í þeim kostnaði var vegna starfa hæfisnefndar.
Ákvörðun um að áfrýja niðurstöðu héraðsdóms til Landsréttar var tekin á fundi Lilju með tveimur aðstoðarmönnum hennar og tveimur lögmönnum, sem unnið höfðu umdeilt lögfræðiálit um málið, strax eftir að niðurstaðan lá fyrir. Rúmum fjórum tímum eftir dómsuppsögu hafði ráðherra tilkynnt að niðurstöðunni yrði áfrýjað. Á áðurnefndum fundi kom einnig fram „sú staðfasta skoðun þeirra sem komu að skipan í starf ráðuneytisstjóra að rétt hefði verið staðið að málum og jafnréttislög hefðu ekki verið brotin.“
Þetta er meðal þess sem fram kemur í svari mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur, þingmanns Viðreisnar, um málið sem birt var á vef Alþingis í gær.
Byggðist á lögfræðiálitum
Páll, sem er flokksbróðir Lilju og hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn í gegnum tíðina, var skipaður í embætti ráðuneytisstjóra 1. nóvember 2019. Hafdís Helga kærði ráðningarferlið í kjölfarið til kærunefndar jafnréttismála sem komst að því í júní 2020 að Lilja hefði brotið jafnréttislög er hún skipaði Pál. Hún hefði vanmetið Hafdísi Helgu í samanburði við Pál. Til þess að fá þessum úrskurði hnekkt þurfti ráðherra að höfða mál gegn Hafdísi Helgu persónulega og það ákvað Lilja að gera. Um er að ræða einstaka ákvörðun.
Úrskurðarnefnd upplýsingamála staðfesti synjun ráðuneytisins á gagnabeiðni Kjarnans í lok sumars 2020, en niðurstaðan var sú að bréfaskipti hins opinbera við sérfróða aðila í tengslum við réttarágreining eða til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt mál skuli höfðað skuli undanþegin upplýsingalögum.
Fundaði með fjórum
Þann 5. mars 2021 var greint frá því að Héraðsdómur Reykjavíkur hefði ekki fallist á kröfu Lilju um ógildingu dómurinn var kveðinn upp á tólfta tímanum, fyrir hádegi. Rúmum fjórum klukkutímum síðar hafði ráðherra tekið ákvörðun um að áfrýja dómnum.
í fyrirspurn sinni spurði Þorbjörg Helga um hvaða forsendur hefðu legið að baki ákvörðun Lilju að áfrýja dómnum, hvaða vinna hefði farið fram í ráðuneytinu við að greina niðurstöður hans og við hverja ráðherrann hefði ráðfært sig áður en ákvörðun um áfrýjun var tekin.
Í svari Lilju segir að um klukkan 12 þennan dag hafi fundur hafist. Á honum hafi verið, auk hennar, Víðir Smári Petersen, aðstoðarmenn hennar Milla Ósk Magnúsdóttir og Hrannar Pétursson og Guðjón Ármannsson hæstaréttarlögmaður. „Á þeim fundi var farið yfir forsendur héraðsdóms og málið greint með tilliti til þeirra sjónarmiða sem upphaflega lágu til grundvallar málshöfðunar vegna úrskurðar kærunefndar jafnréttismála.“
Í svarinu segir að Lilja hefðu áður aflað lögfræðilegra álitsgerða og að þau sjónarmið sem þar komu fram ættu enn við um ákvörðun um áfrýjun málsins. „Á áðurnefndum fundi kom einnig fram sú staðfasta skoðun þeirra sem komu að skipan í starf ráðuneytisstjóra að rétt hefði verið staðið að málum og jafnréttislög hefðu ekki verið brotin. Talið var mikilvægt að eyða öllum vafa um efnisatriði málsins og er varða ákveðin grundvallaratriði við skipan í opinber embætti. Er þá meðal annars vísað til þess hvort ráðherra skuli fara að ráðum hæfnisnefndar eða víkja frá niðurstöðu hennar, án þess að ríkar ástæður séu fyrir hendi.“
Kostnaðurinn við rekstur málsins fyrir héraðsdómi nam alls 8,7 milljónum króna. Áætla er að kostnaður vegna áfrýjunar til Landsréttar verði á bilinu 900 þúsund krónur til 1,2 milljónir króna án virðisaukaskatts. Því má ætla að kostnaðurinn verði í kringum tíu milljónir króna.
Ráðuneytið var samþykkt útvistun
Þorbjörg Sigríður spurði einnig um ástæður þess að málinu hefði verið útvistað til Víðis Smára en ekki rekið af ríkislögmanni. Hún vildi fá að vita hvort ráðherrann hafi sjálfur komið að þeirri ákvörðun að Víðir Smári hafi fengið málið í sínar hendur.
Í svarinu segir að ríkislögmaður hefði tjáð mennta- og menningarmálaráðuneytinu þann 19. júní í fyrra að hann teldi ástæðu til þess að nýta heimild í lögum til að fela lögmanni utan embættisins meðferð málsins fyrir dómi. „Ástæða þess væri einkum sú að hlut að máli ætti skrifstofustjóri í forsætisráðuneyti en samkvæmt forsetaúrskurði fer það ráðuneyti með málefni embættis ríkislögmanns. Embætti ríkislögmanns fékk kynningu á lögfræðiáliti Víðis Smára Petersen og Guðjóns Ármannssonar hæstaréttarlögmanna og þar sem óska þurfti eftir flýtimeðferð og þess að lögmennirnir hefðu kynnt sér málið ítarlega stóðu til þess rök að fela Víði Smára Petersen meðferð málsins fyrir dómi fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðherra vegna íslenska ríkisins. Ráðuneytið var samþykkt þessari ráðstöfun.“