Heildarútlán Lánasjóðs íslenskra námsmanna fyrir skólaárið 2013 til 2014 námu 16,2 milljörðum króna. 11.768 námsmenn fengu afgreidd lán á þessu skólaári en greiðendur námslána voru ríflega 35 þúsund talsins. Þetta kemur fram í ársskýrslu LÍN sem var birt í dag.
Meðalupphæð námslána fer hækkandi og mesta fjölgunin er meðal námsmanna sem skulda meira en tólf milljónir króna. Þá hefur meðalaldur greiðenda hækkað vegna þess að námsmenn fara í lengra nám en áður og eru eldri þegar þeir hefja nám.
7,6 milljarðar króna voru lagðir í afskriftasjóð LÍN árið 2014, sem er mun meira en þeir 2,8 milljarðar sem voru settir í sjóðinn árið 2013. Þetta stafar af því að gjaldþrotum fjölgaði á milli áranna, úr 0,15 prósentum í 0,30 prósent, og vegna þess að meðalafborgun námslána hefur farið lækkandi milli ára. Færri fengu hins vegar undanþágur frá því að borga til baka árið 2014 en árið á undan, eða 4 prósent í stað 5 prósenta.
Vanskilum fjölgar líka milli ára, en þau eru algengust hjá fólki sem býr í útlöndum og þeim sem hafa tekjur undir 250 þúsundum á mánuði. Vanskil hafa líka aukist hjá yngri lánþegum, sem lánasjóðurinn segir áhyggjuefni af því að slík þróun getur bent til aukinnar afskriftarþarfar á næstu árum.
Afskriftasjóður LÍN stendur í 41,5 milljörðum króna, og nemur tæplega tuttugu prósentum af heildarútlánum LÍN. Núvirt virði heildarútlána LÍN er 133 milljarðar, 38,5 milljörðum lægra en bókfært virði þeirra. Munurinn kemur til vegna þess að sjóðurinn lánar námsmönnum á lægri vöxtum en sjóðurinn sjálfur fær til að fjármagna sig.