Tengslavefurinn LinkedIn hefur samþykkt að greiða notendum samtals 13 milljónir Bandaríkjadollara, jafnvirði rúmlega 1,6 milljarða króna, í bætur vegna of margra tilkynninga sem sendar voru í tölvupósti til notenda. Með greiðslunni vill LinkedIn útkljá hópmálsókn sem höfðuð var gegn fyrirtækinu árið 2013. Fyrirtækið greindi notendum frá samkomulaginu í tölvupósti síðastliðinn föstudag. Í póstinum var notendum bent á hvernig þeir geta óskað eftir skaðabótagreiðslu, telji þeir sig eiga rétt á henni.
Notendum LinkedIn er mörgum kunnugt um þann mikla fjölda tölvupósta sem þessi samskiptamiðill atvinnulífsins sendir, oftast áminningar um að tengjast öðrum notendum. Skaðabótamálið má rekja til skilmála svokallaðrar „Add connection“ þjónustu, þar sem notendum býðst að finna tengda aðila í gegnum netfangið sitt. Ef notandi óskar eftir tengingu þá er sá einstaklingur látinn vita með tölvupósti. Ef sú manneskja bregst ekki við er henni sendur annar tölvupóstur til áminningar. Og síðan aftur. Samkvæmt skilmálum var LinkedIn ekki heimilt að senda tvo áminningarpósta og hefur því samþykkt að greiða þeim notendum sem þess óska skaðabætur, samkvæmt umfjöllun Quartz um málið. Þar er notendum sem fengu tölvupóstinn síðastliðinn föstudag bent á hvernig þeir geta óskað eftir skaðabótum.
> Unsubscribe from LinkedIn > Delete email account > Sell house, live in woods > Find bottle in river > Has note inside > It's from LinkedIn
— daryl (@darylginn) April 21, 2015
„Að gefnum þeim ótrúlega fjölda tölvupósta sem LinkedIn sendir notendum, þá vita starfsmenn líklegast hvenær tíma dags best er að hafa samband. Þess vegna er fyndið að tölvupósturinn um samkomulagið var sendur notendum seint á föstudag, á þeim tíma þegar fyrirtæki reyna jafnan að fela slæmar fréttir í þeirri von að almenningur taki ekki eftir því,“ segir í lok umfjöllunar Quartz, sem jafnframt segir að þótt notendur opni sjaldnast tölvupósta frá LinkedIn, þá ættu þeir að gera það núna.
Þeir sem skráðu sig fyrir tengsla-þjónustu LinkedIn í Bandaríkjunum á tímabilinu frá 17. september 2011 til 31. október 2014 geta skráð sig fyrir móttöku skaðabótagreiðslu. Fyrirtækið hefur samþykkt að greiða alls 13 milljónir dollara auk allt að 3,25 milljónum dollara í lögfræðikostnað. Ef nægilega margir skrá sig þá mun LinkedIn bæta við 750 þúsund dollurum í skaðabótapottinn.