Þegar Bengt Sundström keypti lítið uppboðshús í Danmörku árið 1998 grunaði hvorki hann né aðra að 17 árum síðar yrði fyrirtækið orðið hið lang stærsta sinnar tegundar á Norðurlöndum. Hann lætur þó ekki staðar numið og stefnir að því að uppboðshúsið verði með útibú í öllum þeim löndum sem IKEA er með verslanir.
Bengt Sundström er fæddur og uppalinn í Svíþjóð, nýorðinn sextugur. Hugurinn hneigðist snemma til viðskipta og hann sótti menntun sína meðal annars til Sviss, þar sem stundaði nám í IMD viðskiptaháskólanum. Að námi loknu stundaði hann ýmis störf, var til dæmis í sex ár sölustjóri hjá Rank Xerox (heitir Xerox í dag) og síðan um fimm ára skeið hjá uppboðshúsi Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn. Hjá Bruun komst Bengt Sundström í kynni við viðskipti með listaverk, kynntist mörgum listamönnum og listaverkasöfnurum og listaverkasölum um allan heim. „Ég kynntist þessum spennandi heimi innanfrá,“ sagði hann sjálfur í blaðaviðtali.
Keypti uppboðshús
Árið 1998 var lítið uppboðshús í Kaupmannahöfn, Lauritz Christensen Auktioner, auglýst til sölu. Bengt Sundström sló til og keypti fyritækið. „Þessi heimur heillaði mig, ég var líka orðinn nokkuð kunnugur uppboðsheiminum, þetta gamla uppboðshús (stofnað 1885) var líka virt og þekkt víða um heim: Þetta var mitt tækifæri,“ sagði Bengt Sundström síðar í viðtali um ákvörðun sína.
Hinn nýi eigandi hugsaði stórt og ekki þurfti lengi að bíða eftir breytingum. Árið 1999, einu ári eftir eigendaskiptin, tilkynnti Bengt Sundström að framvegis yrði uppboðshús hans einungis á netinu og héti framvegis Lauritz.com. Þegar hann skýrði frá þessum breytingum sagðist hann þess fullviss að netuppboð ættu framtíðina fyrir sér, þó svo að hin hefðbundnu uppboð yrðu áfram til staðar. „Ég hef ákveðið að fara aðra leið,“ sagði Bengt Sundström. Hann hefur þó tæpast rennt grun í að fyrirtæki hans myndi stækka jafn mikið og raunin hefur orðið.
Lauritz.com orðið stórfyrirtæki
Þegar Bengt Sundström keypti fyrirtækið voru starfsmennirnir fimm og ársveltan 12 milljónir danskar krónur (238 milljónir íslenskar). Í dag eru starfsmennirnir tæplega 400 og á síðasta ári nam veltan 1,2 milljörðum danskra króna (tæpum 24 milljörðum íslenskum).
Þegar Sundström keypti fyrirtækið var starfsemin á einum stað, Kaupmannahöfn, en nú er Lauritz.com með starfsemi á 23 stöðum í fjórum löndum, Svíþjóð, Þýskalandi og Belgíu, auk Danmerkur. Starfsemin er umfangsmest í Danmörku, þar er Lauritz.com með 13 vöru- og lagerhús þar sem viðskiptavinir geta skoðað vörur sem eru til sölu og komið með til skoðunar og fengið metið verðgildi hluta sem þeir vilja hugsanlega selja. Enn er þó langt í að starfsemin teygi sig til allra þeirra landa sem IKEA hefur starfsemi en það er markmið eigandans.
Í gegnum uppboðssíðuna hafa milljónir hluta skipt um eigendur en skráðir notendur uppboðssíðunnar Lauritz.com eru vel á aðra milljón. Húsgögn, listaverk, skartgripir, ljós, leikföng, úr og klukkur, teppi, eldhúsáhöld, raftæki, búsáhöld og svo framvegis, og svo framvegis. Allt þetta og margt margt fleira er í boði. Bíla, skip og flugvélar er ekki hægt að kaupa á uppboðssíðunni og stendur ekki til að sögn Bengt Sundström.
Ekki allt ekta
Oft er misjafn sauður í mörgu fé. Þannig hljóðar gamall málsháttur, sem skýrir sig sjálfur. Lauritz.com hefur ekki farið varhluta af ýmis konar svindli og braski. Það snýst einkum um að hlutirnir eru ekki það sem þeir eru sagðir vera, kaupandinn telur sig vera að kaupa ekta vöru sem reynist svo þegar að er gáð vera ódýr eftirlíking. Starfsfólk fyrirtækisins hefur líka margoft verið sakað um að ganga ekki úr skugga um að rétt sé rétt, hafi jafnvel meiri áhuga fyrir að selja hlutina en kanna málið til hlítar.
Fyrir tveimur árum var talsvert fjallað um það í dönskum fjölmiðlum að kona nokkur hefði keypt sex stóla fyrir samtals 14 þúsund danskar krónur gegnum Lauritz.com. Konan var himinlifandi yfir að hafa hreppt þessa þekktu stóla, sem voru hannaðir af hjónunum Charles og Ray Eames, og eru mjög eftirsóttir og eftir því dýrir.
Fljótlega vöknuðu þó hjá konunni grunsemdir um að ekki væri allt með felldu, hún fór með stólana í verslun sem selur meðal annars húsgögn hönnuð af Eames hjónunum. Þar fékk konan að vita að hún hefði keypt köttinn í sekknum, stólarnir væru einungis léleg eftirlíking. Hjá Lauritz.com sögðust menn koma af fjöllum og endurgreiddu konunni stólana. Kontant, neytendaþáttur danska sjónvarpsins tók hinsvegar málið og upp og komst að því að uppboðsfyrirtækið hafði haft fjöldann allan af sams konar stólum til sölu, þeir voru allir framleiddir í Kína og fyrir þá sem til þekkja auðvelt að sjá að þeir væru eftirlíkingar.
Sænsk lúxusrúm framleidd í Kína
Fyrir nokkrum mánuðum komu starfsmenn sænska fyrirtækisins Hästens í eitt af sýningarhúsum Lauritz.com á Jótlandi. Þeim hafði borist til eyrna að þar væru til sýnis, og sölu, rúm sem sögð væru ekta Hästens. Hästens rúmin þykja með þeim vönduðustu og dýrustu sem völ er á og þess vegna vakti það athygli að Lauritz.com væri með slík rúm til sölu á verði sem var einungis brot af því sem slík rúm kosta venjulega.
Þeir hjá Hästens sáu strax að þarna var köttur í bóli bjarnar, hin svokölluðu Hästens rúm í sýningarsal Lauritz.com voru eftirlíkingar, meira að segja lélegar eftirlíkingar að þeirra dómi. Í ljós kom, að sögn Lauritz.com, að starfsmaður fyrirtækisins hafði uppá eigin spýtur keypt 70 rúm frá Kína og flutt til Danmerkur. Dagblaðið Berlingske komst hins vegar yfir gögn sem sýna að fyrirtækið sjálft, Lauritz.com, hafði verið með í innkaupunum og Hästens hefur nú höfðað mál gegn fyrirtækinu.
Hér hafa aðeins verið nefnd tvö dæmi þar sem uppboðsfyrirtækið hefur verið á hálum ís, að ekki sé meira sagt. Mörg önnur dæmi mætti nefna: úr, rauðvínseftirlíkingar, sófaeftirlíkingar og fleira og fleira.
Bengt Sundström hefur sagt að fyrirtækið Lauritz.com hafi vaxið mun hraðar en nokkurn hafi órað fyrir. Því miður sé það þannig að þótt flestir séu heiðarlegir séu alltaf skemmd epli í kassanum. „Það er ljóst að við verðum að vera enn betur á varðbergi gagnvart svindlurum. Við viljum að fólk geti treyst okkur, ef það bregst æ ofan í æ, getum við pakkað saman,“ Bengt Sundström í viðtali við danska sjónvarpið fyrir skömmu.
Sagan af „Svavarsmyndinni“
Eins og margir muna ugglaust hafa á undanförnum árum komið upp nokkur mál (hjá Lauritz, Bruun Rasmussen og fleirum) þar sem reynt hefur verið, og stundum tekist, að selja málverk eignuð íslenskum listmálurum, sem við nánari rannsókn hafa reynst falsanir, eða eftirlíkingar. Lang oftast myndir eignaðar Svavari Guðnasyni.
Fyrir þrem árum sá þessi pistlaskrifari auglýsta á vef Lauritz.com mynd, sem sögð var gerð af Svavari Guðnasyni. Pistlahöfundur komst að því, fyrir tilviljun, að Uppboðshúsi Bruun Rasmussen hafði verið boðin myndin fyrir nokkrum árum en þar var henni hafnað á þeim forsendum að hún væri fölsuð.
Pistlaskrifari gerði sér ferð í sýningarsal Lauritz.com í nágrenni Kaupmannahafnar þeirra erinda að skoða umrædda mynd. Þegar í sýningarsalinn var komið og pistlaskrifari lýsti áhuga á að skoða þetta verk, merkt Svavari Guðnasyni var spurt hvort sá sem vildi skoða væri Íslendingur. Hefur kannski heyrst á hreimnum. Ekki gat pistlaskrifari neitað upprunanum en svo undarlega bar þá við að myndin, merkt Svavari Guðnasyni fannst ekki í sýningarsalnum. Starfsmenn klóruðu sér í kollinum en það breytti engu, myndin var horfin.
Pistlaskrifara þótti þetta fremur einkennilegt en fór heim án þess að hafa séð myndina. Einhverra hluta vegna hvarf svo þessi mynd af vef Lauritz.com áður en kom að þeim tíma sem myndin skyldi seld. Maður sem vinnur „í þessum bransa“ og pistlaskrifari er málkunnugur fullyrðir að eigandinn hafi dregið hana til baka og ætli nú að bíða rólegur í nokkur ár, áður en hann reynir að selja hana aftur, það yrði þá þriðja tilraunin.