Byggingarkostnaður á Íslandi er hár miðað við fasteignaverð. Í sumum tilfellum er munurinn á þessu tvennu hverfandi, sem dregur úr hvata verktaka til að ráðast í byggingar á minni og ódýrari íbúðum, sem mesta eftirspurnin er eftir. Að mati verktaka stendur hátt lóðaverð hjá sveitarfélögunum þessu helst fyrir þrifum.
Samkvæmt reglulegum mælingum Hagstofu Íslands hefur byggingarvísitalan hækkað um sjötíu prósent frá ársbyrjun 2007. Það þýðir með öðrum orðum að kostnaður við að byggja sér íbúð í átján íbúða fjölbýlishúsi á höfuðborgarsvæðinu, sem er vísitöluhús Hagstofunnar, hefur hækkað um sjötíu prósent á tímabilinu. Byggingarvísitalan mælir verðbreytingar á byggingarkostnaði með því að skoða breytingar á verði á byggingaraðföngum.
Hækkandi verð á innfluttri hrávöru í kjölfar gengishruns íslensku krónunnar skýrir hækkunina að hluta, en hærri kostnaður vegna innlendrar hrávöru og vegna vinnu, véla, flutnings og orkunotkunar vegur þar þyngst. Þó að vísitalan gefi nokkuð góðar vísbendingar um kostnaðinn við það að koma sér upp þaki yfir höfuðið er fjármagnskostnaður, ýmis markaðs- og sölukostnaður og lóðaverð ekki haft til hliðsjónar við útreikning vísitölunnar.
Lóðaverð, eða gjaldið sem sveitarfélögin rukka þegar byggingalóð er úthlutað, hefur farið ört hækkandi á undanförnum árum og er orðið stór hluti af húsnæðisverði. Tveir helstu þættir sem hafa áhrif á lóðaverð eru staðsetning og skipulagsáætlanir, þar sem stærð bygginga er skilgreind ásamt landnotkun.
Þetta er örstutt brot úr ítarlegri umfjöllun Kjarnans um ástandið á byggingamarkaði. Lestu hana í heild sinni í nýjustu útgáfu Kjarnans.