Æðsti dómstóll Grikklands mun skera úr um hvort boðuð þjóðaratkvæðagreiðsla næsta sunnudag, um samninga við kröfuhafa gríska ríkisins, standist stjórnarskrá landsins. Í atkvæðagreiðslunni verða Grikkir spurðir hvort þeir vilji þyggja fjárhagsaðstoð frá Evrópusambandinu og alþjóðastofnunum gegn frekara aðhaldi og niðurskurði í ríkisrekstri.
Nei-liðar, með Tsipras forsætisráðherra í broddi fylkingar, telja að skýr afstaða þar sem samningum er hafnað muni bæta samningsstöðu Grikklands. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum er fylgið hnífjafnt. Í morgun birtist skoðanakönnun sem sýndi 44,8 prósent fylgi við samþykki samninga en 43,4 prósent fylgi við að þeim verði hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Samkvæmt sömu könnun vilja 74 prósent Grikkja halda áfram evrusamstarfinu og 15 prósent vilja taka upp eigin mynt. Könnun Bloomberg fréttastofunnar bendir til hins sama hvað þjóðaratkvæðagreiðsluna varðar, 42,5 prósent sögðust ætla kjósa „já“ en 43 prósent myndu kjósa „nei“. Um 14,5 prósent aðspurðra sögðust óákveðin.
Leiðtogar stærstu evruríkjanna og Evrópusambandsins hafa sagt með skýrum hætti að í raun kjósi Grikkir um áframhaldandi veru í evrusamstarfinu. Í gær gaf Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) út yfirlýsingu og sagði Grikkland þurfa 50 milljarða evra til viðbótar næstu þrjú árin og viðamikla niðurfellingu skulda til þess að ná jafnvægi í hagkerfið. Um 1,6 milljarða evra endurgreiðsla af fyrra láni frá AGS féll á gjalddaga í byrjun júlímánaðar. Slíkt gæti alla jafna haft gríðarlegar afleiðingar og hrint af stað keðjuverkun þar sem önnur lán til Grikkja falla á gjalddaga. Málið snýr þó aðeins öðruvísi vegna þess að um er að ræða lán frá AGS. Í dag tilkynnti Evrópski fjármálastöðugleikasjóðurinn, EFSF, síðan að ekki verði gerð krafa um endurgreiðslu nærri 150 milljarða evra láns vegna ákvörðunar grískra stjórnvalda um að greiða ekki AGS, að svo stöddu.