Lögreglumenn voru í 89 atvikum kærðir til embættis Ríkissaksóknara fyrir meinta misbeitingu valds í starfi á árunum 2008 til 2014. Þetta kemur fram í skriflegu svari Ólafar Nordal innanríkisráðherra, við fyrirspurn Birgittu Jónsdóttur þingmanns Pírata, sem lagt var fram fyrir Alþingi í dag.
Árið 2008 voru kærurnar 15 talsins, þar af voru þrettán vegna meints harðræðis og ein vegna niðurlægjandi háttsemi við líkamsleit. Rannsókn var hætt í fimm málum, átta mál voru felld niður og í einu máli var fallið frá saksókn. Í einu málinu var ákært, þar sem sakfellt var fyrir líkamsárás en sýknað af ákæru um brot í starfi.
Kærur á hendur lögreglu fyrir misbeitingu valds í starfi voru 12 að tölu árið 2009. Ellefu mál voru vegna meints harðræðis lögreglu, tvö málin lutu að illri meðferð þar sem viðkomandi var haldið of lengi í fangaklefa. Í öðru málinu var lögregla sökuð um að hafa látið undir höfuð leggjast að hafa samband við ættingja eða lögmenn. Í öllum málunum var ýmist rannsókn hætt eða þau felld niður, nema einu þar sem sakfellt var fyrir brot í starfi fyrir Hæstarétti Íslands.
Ríkissaksóknara bárust 14 kærur árið 2010 þar sem lögreglumenn voru sakaðir um misbeitingu valds í starfi. Tólf kæranna lutu að meintu harðræði lögreglu, ein kæran var vegna meintrar hótunar og önnur vegna niðurlægjandi meðferðar við handtöku. Rannsókn var hætt eða mál felld niður í öllum tilvikum, nema einu þar sem kæra var dregin til baka.
Árið 2011 voru kærurnar ellefu talsins. Sjö kærur vegna meints harðræðis, tvær vegna niðurlægjandi meðferðar, ein vegna illrar meðferðar og í einu tilviki var lögreglumaður kærður fyrir að leyna gögnum vegna gæsluvarðhalds. Í öllum málunum var ýmist rannsókn hætt eða þau felld niður.
Kærur á hendur lögreglumönnum fyrir misbeitingu valds í starfi voru tólf talsins árið 2012. Ellefu málanna voru vegna meints harðræðis og í einu tilfelli var andlát manns í vörslu lögreglu kært til Ríkissaksóknara. Í tveimur málanna var rannsókn hætt, sjö mál voru felld niður, kæru í einu máli var vísað frá og í einu tilviki var fallið frá saksókn. Eitt málið, er varðaði harðræði við handtöku, leiddi til ákæru þar sem lögreglumaður var sakfelldur fyrir Héraðsdómi fyrir brot í starfi.
Árið 2013 barst Ríkissaksóknara 20 kærur þar sem lögreglumenn voru sakaðir um misbeitingu valds í starfi. Það ár bárust flestar kærurnar þess efnis á áðurnefndu tímabili sem var til skoðunar. Fjórtán málanna voru vegna meints harðræðis, þrjár kærurnar lutu að niðurlægingu við handtöku, í einu málinu var lögreglu gefið að sök líkamsárás vegna afskipta af handtöku, og í einu tilviki var lögregla kærð vegna líkamsmeiðingar af gáleysi á vettvangi og öðru var lögreglu gefið að sök að hafa ekki virt ósk um rétt til lögmanns. Í fimmtán málum var rannsókn hætt eða þau felld niður. Í fjórum málum var kærum vísað frá, en í einu tilviki var lögreglumaður dæmdur í skilorðsbundið fangelsi vegna harðræðis við handtöku.
Á síðast ári voru fimm mál, þar sem lögreglumenn voru sakaðir um misbeitingu valds, kærð til Ríkissaksóknara. Í þremur málanna var kærum vísað frá, í einu málinu var rannsókn hætt og í því fimmta þótti ekki tilefni til að framkvæma rannsókn.
Af þeim 89 málum, þar sem lögreglumenn voru sakaðir um misbeitingu valds, sem bárust Ríkissaksóknara á árunum 2008 til 2014, leiddu fjögur þeirra til sakfellingar yfir lögreglumönnum fyrir dómstólum.