Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er þekkt samfélagsmiðlatröll. Í desember 2010 ákváðu Þórir Ingvarsson, rannsóknarlögreglumaður og þáverandi lögreglustjóri, Stefán Eiríksson, að stofna Facebook-síðu fyrir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Það gerðu þeir sem tilraun til að komast í samskipti við fólk – sem kom í ljós að var greinilega alveg til í að fylgjast með lögreglunni.
Í dag er síða lögreglunnar sú íslenska Facebook-síða sem er með flesta fylgjendur, alls 71.316 talsins og Twitter-fylgjendur eru orðnir rúmlega 10.400. Til marks um áhrifamátt notkunar embættisins á þessum miðlum má nefna að sprell Bigga löggu, sem birtist í gegnum samfélagsmiðla lögreglunnar, hefur gert hann að landsþekktum manni.
Í fréttaskýringu sem Kjarninn birti í maí síðastliðnum kom fram að alls tólf starfsmenn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sjá um að birta efni á Facebook-síðunni, svara athugasemdum og einkaskilaboðum. Þeirra á meðal eru bæði rannsóknarlögreglumenn og þeir sem vinna úti á vettvangi. Í þeirri fréttaskýringu er haft eftir Þóri að Facebook-síðan hafi verið sett á laggirnar til að bregðast við hinu nýja stafræna samfélagi. „Lögreglan á að vera þar sem fólkið er. Við erum ekki lengur í þjóðfélagi þar sem börn eru úti á leikvelli og fólk að vinna úti. Við erum orðin að miklu leyti stafrænt samfélag og það vantaði kannski stafræna lögreglu“.
Þessi framúrskarandi árangur lögreglunnar í nýtingu tækniframfara til að eiga í samskiptum við borgara landsins hefur vakið verðskuldaða heimsathygli.
Það kom því flatt upp á marga þegar Jón H. B. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, kom í viðtal við Fréttablaðið í gær og rakti ástæður þess að sakamálum fyrir dómstólum hafi fækkað á Íslandi undanfarin ár. Á meðal þess sem hann tilgreindi sem ástæðu var sú að hluti brotastarfsemi hafi færst í auknum mæli á netið. Þar nefndi Jón til að mynda viðskipti með ólöglegan varning (t.d. fíkniefni og þýfi), fjársvikamál og kynferðisafbrotamál. Það kalli á breytt verklag hjá lögreglu og að sögn Jóns þarf hún "að koma sér upp þekkingu og færni þar".
Það verður að teljast ótrúlegt ef lögregluembætti sem skarar framúr í heiminum í því að nýta samfélagsmiðla til að vera í samskiptum við borgarana, noti alls tólf starfsmenn til að birta efni á þeim miðlum og virðist meðvituð um hversu „stafrænt samfélag“ Ísland er orðið hafi hreinlega verið gripið það illa í bólinu varðandi notkun glæpamanna á þessum tækninýjungum að það hafi ekki haft fyrir því að koma sér upp „þekkingu og færni“ til að takast á við þær breytingar.