Lögregluyfirvöld í Lúxemborg hafa haft Lindsor-málið svokallaða til rannsóknar árum saman og svo gæti farið að íslenskir stjórnendur Kaupþings, sem og aðrir Íslendingar sem tengjast málinu, verði saksóttir þar í landi.
Embætti sérstaks saksóknara rannsakar enn hluta málsins og mun taka ákvörðun á næstu misserum um hvort ákært verði í honum fyrir íslenskum dómstólum. Ákvörðunin verður tekin í samstarfi við lögregluyfirvöld í Lúxemborg og með tilliti til þess hluta málsins sem þar er til rannsóknar. Ákveði báðir aðilar að ákæra á grundvelli Lindsor-rannsóknarinnar gætu þeir sem þar eru til rannsóknar verið saksóttir í tveimur löndum vegna hennar, en þó ekki fyrir sömu sakir á báðum stöðum.
Sérstakur saksóknari framkvæmdi meðal annars réttarbeiðni hérlendis í fyrra vegna rannsóknarinnar í Lúxemborg. Samkvæmt heimildum Kjarnans hefur málið undið verulega upp á sig og snýst nú um mun fleiri fjármagnsfærslur en þær 171 milljónir evra, um 26,5 milljarða króna, sem voru færðar til félagsins Lindsor Holding Corporation í hruninu og var rót upphaflegrar rannsóknar íslenskra rannsóknaraðila.
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings og einn þeirra sem legið hafa undir grun í málinu, segir í samtali við Kjarnann að hann hafi ekkert heyrt af rannsókn sérstaks saksóknara á Lindsor-málinu í einhver ár. „Það er á sjötta ár síðan þeir gerðu húsleit heima hjá mér vegna þessa máls og á fimmta ár síðan ég var dæmdur í gæsluvarðhald vegna þeirrar rannsóknar, svo ég hef nú gert ráð fyrir að þeirri rannsókn sé hætt. Lögregluyfirvöld í Lúxemborg hafa ekki yfirheyrt mig vegna þessa máls né annarra mála.“
Hreiðar Már segist ekki geta að öðru leyti tjáð sig efnislega um einstök mál sem sérstakur saksóknari hefur verið að rannsaka á hendur honum.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_06_26/1[/embed]
Tugir milljarða til Tortola
Hinn 6. október 2008 fékk Lindsor Holding Corporation, félag skráð á Tortóla-eyju, 171 milljón evra, um 26,5 milljarða króna á gengi dagsins í dag, lánaða frá Kaupþingi. Lindsor var í eigu Otris, félags sem stjórnendur Kaupþings stýrðu og virkaði sem nokkurs konar ruslakista, afskriftasjóður utan efnahagsreiknings Kaupþings. Þangað var lélegum, og ónýtum, eignum hrúgað.
Lánið var veitt sama dag og Seðlabanki Íslands lánaði Kaupþingi 500 milljónir evra í neyðarlán og þremur dögum áður en Kaupþing hrundi.
Þetta er örstutt brot úr umfjöllun Kjarnans um Lindsor-málið. Lestu hana í heild sinni hér.