Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir enga tilraun hafa verið gerða til að leyna því sem fram kom á upptökum úr búkmyndavélum lögreglumanna sem komu á vettvang í Ásmundarsal á Þorláksmessu. Eftirlitsnefnd með störfum lögreglu hafi fengið tæmandi endurrit af samræðum lögreglumanna á vettvangi fylgdi með til nefndarinnar strax í upphafi skoðunar hennar á málinu og þegar hún hafi beðið um nýtt eintak af upptöku úr búmyndavélum hafi rétt eintak verið sent til nefndarinnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni sem send var út í tilefni af fréttaflutningi af niðurstöðu nefndar um eftirlit með lögreglu (NEL) varðandi starfshætti lögreglu.
RÚV greindi frá því í gær að NEL telji að háttsemi þeirra veggja lögregluþjóna sem fóru í Ásmundarsal á Þorláksmessu geti telist ámælisverð og tilefni sé til að senda þann þátt til meðferðar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Á búkmyndavél eins þeirra heyrist hann segja: „Hvernig yrði fréttatilkynningin....40 manna einkasamkvæmi og þjóðþekktir einstaklingar..., er það of mikið?“
Málið á rætur sínar að rekja til þess að lögreglan greindi frá því í upplýsingapósti úr dagbók lögreglu að morgni aðfangadags 2020 að lögregla hefði verið kölluð til klukkan 22:25 á Þorláksmessu vegna samkvæmis í sal í útleigu í miðbæ Reykjavík. Í póstinum stóð að veitingarekstur í salnum væri í flokki sem ætti að vera lokaður á þessum tíma vegna sóttvarnarreglna. „Í ljós kom að á milli 40-50 gestir voru samankomin í salnum, þar á meðal einn háttvirtur ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Töluverð ölvun var í samkvæminu og voru flestir gestanna með áfengi við hönd. Lögreglumenn veittu athygli að enginn gestanna var með andlitsgrímur fyrir andliti. Lögreglumenn sögðu að nánast hvergi voru fjarlægðartakmörk virt. Lögreglumenn sáu aðeins 3 sprittbrúsa í salnum. Lögreglumenn ræddu við ábyrgðarmenn skemmtunarinnar og þeim kynnt að skýrsla yrði rituð. Þá var gestum vísað út. Þegar að gestir gengu út voru flestir búnir að setja upp andlitsgrímu. Gestirnir kvöddust margir með faðmlögum og einhverjir með kossum. Einn gestanna var ósáttur með afskipti lögreglu og líkti okkur við nasista.“
Fyrstu upplýsingar að þetta væri einkasamkvæmi
Aðstandendur Ásmundarsalar, Aðalheiður Magnúsdóttir og Sigurbjörn Þorkelsson, greindu frá því í yfirlýsingu sem þau sendu á fjölmiðla í gær að ekki hafi verið brotið gegn reglum um fjöldatakmarkanir í salnum á Þorláksmessu á síðasta ári.
Enn fremur sagði í tilkynningunni að ekki hafi verið brotið gegn reglum um opnunartíma umrætt kvöld og að ekkert samkvæmi hafi verið haldið í listasafninu umrætt kvöld. Aftur á móti hafi verið brotið gegn ákvæði um grímuskyldu.
Í tilkynningu lögreglu í dag segir að það sé grundvallartriði að viðhalda því góða trausti sem lögreglan nýtur. Eftirlit með störfum lögreglu sé einn af hornsteinum þess að viðhalda því trausti. „Hvað varðar afhendingu gagna til nefndarinnar er rétt að taka fram að tæmandi endurrit af samræðum lögreglumanna á vettvangi fylgdi með til nefndarinnar strax í upphafi. Nefndin hafði þar af leiðandi umrædd samtöl, sem vísað er til í niðurstöðum hennar, undir höndum allan tímann. Rétt er að hluti af upptökum úr búkmyndavélum á vettvangi var án hljóðs. Þegar nefndin gerði athugasemd við það var rétt eintak sent til nefndarinnar. Engin tilraun var gerð til að leyna því sem fram kom á upptökunum.
Hvað varðar niðurstöðu nefndarinnar um að vísbendingar séu um að dagbókarfærsla hafi verið efnislega röng telur embættið mikilvægt að taka fram að fyrstu upplýsingar lögreglu sem fengust á vettvangi voru á þann veg að um einkasamkvæmi væri að ræða og var það því skráð sem slíkt í dagbók lögreglu. „Hins vegar leiddi frekari rannsókn málsins í ljós að svo var ekki. Markmið með birtingu upplýsinga úr dagbókarfærslum er að fjalla um verkefni lögreglu eins og þau birtast á hverjum tíma. Eðli máls samkvæmt geta mál skýrst eða tekið aðra stefnu eftir því sem rannsókn miðar áfram.“
Hvað varðar niðurstöðu nefndarinnar um að háttsemi tiltekinna starfsmanna embættisins geti talist ámælisverð þá hefur Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tekið það til meðferðar og sett í farveg. „Að öðru leyti getur embættið ekki veitt upplýsingar um málefni einstakra starfsmanna.“