Lögreglustjórafélag Íslands segir að lögreglustjórar líti ekki svo á að efast þurfi um umboð starfsmanna innanríkisráðuneytis til samskipta við þá. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu sem Halla Bergþóra Björnsdóttir, sýslumaður á Akranesi og formaður félagsins, sendi rétt í þessu á fjölmiðla. Tilefnið er fréttaflutningur um greinargerð um hælisleitandann Tony Omos sem Sigríður Björk Guðjónsdóttir, þá lögreglustjóri á Suðurnesjum en nú lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, sendi Gísla Frey Valdórssyni, þáverandi aðstoðarmanni Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þáverandi innanríkisráðherra.
Sigríður Björk sendi greinargerð um Tony Omos til Gísla Freys þann 20. nóvember 2013 eftir að hann hafði beðið um hana. Undanfarna draga hefur það víða verið dregið í efa hvort pólitískt skipaður aðstoðarmaður ráðherra hafi umboð til að leita eftir slíkum gögnum, og hvort lögreglustjórar megi afhenda mögulega umboðslausum aðstoðarmönnum þau.
Í tilkynningu lögreglustjórafélagsins segir:
„Í fréttum undanfarna daga um greinargerð, sem þáverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum sendi fyrrverandi aðstoðarmanni innanríkisráðherra um málefni hælisleitanda, hefur á því borið að samskipti lögreglustjórans og aðstoðarmannsins vegna greinargerðarinnar hafa verið gerð tortryggileg. Er það gert með því að láta að því liggja að lögreglustjórinn beri með einhverjum hætti ábyrgð á aðkomu aðstoðarmannsins og því að hann vistaði ekki minnisblaðið í skjalasafni ráðuneytisins. Af þessu tilefni vill stjórn Lögreglustjórafélags Íslands koma eftirfarandi á framfæri.
Samskipti lögreglustjóra og ráðuneytis hafa verið og eru mikil; bæði formleg, s.s. með bréfum, og óformleg, s.s. með símtölum, og snerta þau samskipti alla þætti í starfsemi lögregluembætta, sem undir ráðherra falla.
Samskipti lögreglustjóra eru við alla starfsmenn ráðuneytis án tillits til stöðu þeirra innan ráðuneytisins. Það ræðst af efni hvers erindis hver starfsmanna ráðuneytis er í samskiptum við lögreglustjóra. Í þessum samskiptum hefur það aldrei gerst að þurft hafi að efast um heimild starfsmanns ráðuneytis til að eiga í samskiptum við lögreglustjóra eða heldur að þau hafi með réttum hætti farið í skjalasafn ráðuneytisins. Á þetta bæði við um embættismenn ráðuneytis og aðstoðarmenn ráðherra. Lögreglustjórar líta einfaldlega svo á að ekki þurfi að efast um umboð starfsmanna ráðuneytis til samskipta við lögreglustjóra.”