Sérskipuð nefnd um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins telur að Stefáni Eiríkssyni, þáverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, hafi ekki verið rétt að víkja lögreglumanninum Gunnari Scheving Thorsteinssyni tímabundið frá störfum, eftir að Gunnar var ákærður í LÖKE-málinu svokallaða.
Þetta kemur fram í álitsgerð nefndarinnar, sem Kjarninn hefur undir höndum, en nefndin klofnaði í áliti sínu. Einn nefndarmaður af þremur, lögfræðingurinn Helgi Valberg Jensson, skilaði séráliti þar sem hann telur að ákvörðun lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins hafi verið réttmæt.
Háttsemin ekki fullnægjandi grundvöllur
Í niðurstöðu meirihlutans segir að lögreglustjóra hafi ekki verið rétt að veita Gunnari Scheving lausn frá störfum tímabundið á grundvelli starfsmannalaga. „Er það því álit nefndarinnar að háttsemi sú sem Gunnar var grunaður um hafi ekki verið fullnægjandi grundvöllur ákvörðunarinnar og þar með hafi ekki verið uppfyllt skilyrði 2. málsgr. 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaga,“ eins og segir orðrétt í álitsgerðinni. Undir niðurstöðuna skrifa lögfræðingarnir Kristín Benediktsdóttir, sem jafnframt var formaður nefndarinnar, og Sonja Ýr Þorbergsdóttir, sem var tilnefnd af heildarsamtökum ríkisstarfsmanna.
Gunnar Scheving Thorsteinsson var ákærður um að fletta upp nöfnum tuga kvenna í málaskrá lögreglu, svokölluðu LÖKE-kerfi, án þess að það tengdist störfum hans sem lögreglumaður. Þá var hann sakaður um að miðla persónuupplýsingum sem leynt áttu að fara til þriðja aðila. Ákæruvaldið féll frá veigamesta ákæruliðnum vegna ágalla á rannsókn málsins og Gunnar var síðar sýknaður af þeim veigaminni í Héraðsdómi Reykjavíkur. Gunnar hefur krafið lögreglustjóraembættið á höfuðborgarsvæðinu um bætur vegna málsmeðferðarinnar.
Góð niðurstaða
Garðar St. Ólafsson, lögmaður Gunnars, fagnar niðurstöðu nefndar um starfsmannalög. „Fyrst og fremst er þetta mikill siðferðislegur sigur. Það er ólýsanlegur léttir fyrir skjólstæðing minn að viðurkennt sé opinberlega að hann hafi verið beittur ranglæti. Þá er þetta auðvitað mjög góð niðurstaða fyrir bótakröfu hans. Þessi niðurstaða er enn frekari hvatning fyrir ríkislögmann og ráðuneyti að bjóða honum ásættanlegar bætur. Ef ekki næst samkomulag um það, þá er þetta sterk röksemd fyrir okkur þegar bótamál kemur fyrir dóm,“ segir Garðar St. Ólafsson í samtali við Kjarnann.