Arnar Pétursson, Íslandsmeistari karla í maraþoni, kom fyrstur í mark í Víðavangshlaupi ÍR, sem fram fór venju samkvæmt á sumardaginn fyrsta, þann 23. apríl síðastliðinn, og var krýndur Íslandsmeistari karla í 5 kílómetra götuhlaupi við komuna í endamarkið.
Hlaupstjóri Víðavangshlaupsins, Sigurður Þórarinsson, segir að leitað hafi verið álits Frjálsíþróttasambands Íslands (FRÍ) á framkvæmd hlaupsins, vegna ábendingar um að lokasprettur Arnars í hlaupinu hafi ekki verið í samræmi við reglur Alþjóða frjálsíþróttasambandsins um götuhlaup, sem framkvæmd Víðivangshlaups ÍR heyrir undir.
RÚV sýndi myndband af lokasprett þeirra Arnars Péturssonar og Ingvars Hjartasonar í úrslitum karla, en þar má sjá hvernig Arnar sker síðustu beygju hlaupabrautarinnar og nær þar með forskoti á keppinaut sinn. Myndbandið má sjá hér að neðan.
https://vimeo.com/126132945
„Við fyrstu sýn er þetta ekki brot á neinum reglum, ekki alþjóðareglum frjálsíþróttasambandanna og þá ekki íslenskum heldur, en mögulega hefði brautarvarslan mátt vera betri þarna,“ segir Sigurður Þórarinsson hlaupstjóri í samtali við Kjarnann. „Mælingin sem er gerð á brautinni skilgreinir þetta ekki nákvæmlega heldur, þannig að það eru margir vinklar á þessu sem þarf að skoða.“
Atvikið vakið umræðu innan hlaupasamfélagsins
Í reglum Alþjóða frjálsíþróttasambandsins um götuhlaup segir um framkvæmd keppna: „Í götuhlaupum má keppandi hverfa út af vegi eða braut með leyfi og undir eftirliti dómara, svo fremi að tryggt sé að með því að hverfa út af braut stytti hann ekki keppnisvegalengd sína.“ Þá segir sömuleiðis í reglunum að yfirdómara beri að vísa keppanda úr keppni ef hann er sannfærður, eftir skýrslu dómara eða brautardómara, um að umræddur keppandi hafi farið út fyrir merkta braut og þar með stytt sér þá leið sem átti að fara.
„Fólk út í bæ hafði samband við okkur daginn eftir hlaupið til að spyrjast út í þetta, þannig að við leituðum álits hjá FRÍ um hvort reglur hafi verið brotnar og þá hvaða reglur. Í öllum götuhlaupum eru staðir þar sem er hægt að skera af hlaupaleiðinni, til dæmis þegar menn hlaupa upp á gangstéttar sem er alvanalegt og fleiri hundruð manns gerðu í þessu hlaupi, og mer sýnist að þetta atvik sé ekkert öðruvísi en það. Reglur Alþjóða frjálsíþróttasambandsins um götuhlaup eru ekki skýrar hvað þetta varðar, og þetta tíðkast allstaðar í götuhlaupum.“
Umrætt atvik í Víðavangshlaupinu hefur vakið töluverða umræðu í hlaupasamfélaginu. Þar eru menn almennt sammála um að ekki sé hægt að bera saman horn í miðju götuhlaupi, sem hundruð hlaupara skera og græða þar af leiðandi lítið á, við beygju í endasprett í Íslandsmóti.
Úrslitin standa óhögguð
Þar sem að úrslit hlaupsins voru ekki kærð innan 30 mínútna frá því að úrslit þess voru birt, standa þau óhögguð samkvæmt reglum Víðavangshlaupsins.
„Við þurftum í sjálfu sér ekki að gera neitt í þessu máli, vegna þess að úrslitin voru ekki kærð, og það er ekkert víst að FRÍ gefi neitt frá sér varðandi þetta af sömu ástæðu. Hvað sem gerist þá standa úrslitin óhögguð, þó reglurnar séu ef til vill óskýrar á nokkrum stöðum, þá eru þær alveg skýrar hvað þetta varðar.“
Sigurður segir að ákveðið hafi verið að skoða atvikið og leita álits FRÍ til að læra af málinu. „Ef eitthvað í framkvæmd hlaupsins hefði mátt betur fara, þá er rétt að skoða það.“
Aníta Hinriksdóttir, sem varð hlutskörpust kvenna í Víðavangshlaupi ÍR, og Arnar Pétursson taka við sigurverðlaununum í Hörpu. Mynd: Fésbókarsíða Víðavangshlaups ÍR
Gagnrýnir ekki Arnar, heldur framkvæmd hlaupsins
Hlauparinn Ingvar Hjartarson, sem kom í endamark Víðavangshlaupsins á eftir Arnari, segir að hann hafi ekki tekið eftir því þegar Arnar skar síðustu beygju hlaupsins. „Maður er svo mikið í sínum eigin heimi, þannig að ég missti af þessu. En eftir að ég kom í mark komu fjölmargir að máli við mig og sögðu mér hvað hefði gerst. Ég sá svo ekki atvikið með mínum eigin augum fyrr en ég sá myndbandið á RÚV, en þá var orðið of seint að kæra úrslitin, sem ég hefði gert hefði ég vitað af kærufrestinum,“ segir Ingvar í samtali við Kjarnann.
Hann gagnrýnir ekki keppinaut sinn og hlaupafélaga fyrir atvikið, en gagnrýnir hins vegar framkvæmd hlaupsins. „Þetta gerist í hita leiksins, hins vegar vantaði klárlega brautarvörð þarna á hornið, sem ég svo sá að tók sér stöðu þarna eftir að við vorum komnir í mark. Ég hefði kært úrslitin út af annmörkum á framkvæmd hlaupsins á þessum krítíska tímapunkti í hlaupinu, á sjálfum lokakaflanum.“
Sýknaður af ásökunum um svindl í Reykjavíkurmaraþoninu
Eins og Kjarninn greindi frá 11. september var Arnar Pétursson sakaður um svindl í Reykjavíkurmaraþoninu, sem fram fór 23. ágúst síðastliðinn. Arnar sigraði hlaupið með yfirburðum, en hlauparinn Pétur Sturla Bjarnason, sem kom annar í mark á eftir Arnari, kærði úrslit hlaupsins og sagði að Arnar hefði notið liðsinnis hjólreiðamanna í hlaupinu.
Yfirdómnefnd maraþonsins viðurkenndi í úrskurði sínum að reglur hlaupsins hafi verið brotnar í umrætt sinn, en taldi ósannað að Arnar hafi notið aðstoðar hjólreiðamannanna og vísaði kærunni frá. Dómstóll Íþrótta- og ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) staðfesti síðar úrskurð yfirdómnefndar og áfrýjunardómstóll sambandsins vísaði málinu frá vegna annmarka á kæruferli málsins.