Gunnar Scheving Thorsteinsson, lögreglumaðurinn sem er ákærður í LÖKE-málinu svokallaða, segist ætla sækja rétt sinn, hvort sem það verði með því að krefjast refsingar yfir þeim sem hann telur að hafi brotið gegn sér, með því að sækja bætur eða með því að berjast fyrir starfi sínu. Þetta kemur fram í viðtali við Gunnar í Fréttablaðinu í dag.
Kjarninn greindi frá því í síðustu viku að ríkissaksóknari hefði ákveðið að falla frá veigamesta ákærulið í LÖKE-málsins, þar Gunnari var gefið að sök að hafa flett upp nöfnum 45 kvenna í málaskrá lögreglunnar (LÖKE) og skoðað þar upplýsingar um konurnar, án þess að uppflettingarnar tengdust starfi hans sem lögreglumanns. Í ákæru málsins var Gunnar Scheving sakaður um að hafa þannig misnotað stöðu sína í því skyni að afla sér upplýsingar um konurnar.
Aðalmeðferð í málinu fór síðan fram á föstudag, en eftir í því stóð ákæruliður þar sem Gunnar er sakaður um að hafa miðlað persónuupplýsingum sem leynt áttu að fara til þriðja aðila. Hún stóð yfir í um hálftíma og ákæruvaldið fer ekki fram á refsingu yfir Gunnari.
Fletti einfaldlega ekki upp nöfnum kvennanna
Í viðtalinu við Fréttablaðið segist Gunnar hvorki bera hatur né illvilja til neins. "En ég þarf að rétta hlut minn sjáanlega. Það sem skiptir mig miklu máli er að geta horft á sjálfan mig í spegli," segir hann. Hann muni því sækja rétt sinn, hvort sem það verði með því að krefjast refsingar yfir þeim sem brutu gegn honum eða sækja þær bætur sem hann eigi rétt á eða berjast fyrir starfi sínu. "Því ég ætla út í lögregluna á mínum forsendum ef ég ætla út í lögregluna yfirhöfuð."
Á meðan að á rannsókn málsins stóð var Gunnar vistaður eina nótt í fangaklefa. Hann segir að þá hafi aðstæðurnar runnið upp fyrir honum. "Þegar ég var í fangaklefa í Grindavík lá ég og vissi að líf mitt eins og ég þekkti það var búið. Að það sé hægt að fara svo óvarlega með opinbert vald er eitthvað sem ég hefði aldrei leyft mér sem lögreglumaður. Frelsissvipting og svipting mannorðs er eitthvað sem þú getur aldrei farið of varlega með."
Gunnar segist telja að rannsakendur hafi upphaflega grunað hann um mun alvarlegri hluti en hann var á endanum ákærður fyrir, þ.e. ekki einvörðungu uppflettingar á konunum í kerfinu. Sá grunur hafi hins vegar setið eftir "eftir ónýta rannsókn, þar sem ég var grunaður um miklu alvarlegri hluti."
Í byrjun var hann ásakaður um að hafa náð í upplýsingarnar í gagnagrunninum og deilt þeim með vinum sínum. Þær ásakanir hafi birst í fjölmiðlum löngu áður en gefin var út ákæra. Garðar St. Ólafsson, verjandi Gunnars, hefur opinberlega sagt að skjólstæðingur sinn hafi verið borinn röngum sökum af Öldu Hrönn Jóhannsdóttur, sem þá var yfirlögfræðingur lögreglunnar á Suðurnesjum en er nú aðstoðaryfirlögreglustjóri í Reykjavík. Rannsókn málsins var á forræði lögreglunnar á Suðurnesjum á sínum tíma.
Gunnar segir að þær upplýsingar hafi komið annarsstaðar frá. Hann hafi einfaldlega ekki flett upp nöfnum kvennanna í LÖKE-kerfinu.
Kominn með trú á lögreglunni aftur
Gunnar segir í viðtalinu að hann hafi misst tiltrú á lögreglu og ákæruvaldinu fyrst eftir að málið kom upp, en það álit hafi áunnist aftur eftir atburði liðinnar viku. "En hvort ég vil starfa áfram í lögreglunni, þá er það eitthvað sem ég get ekki svarað strax. Ég hef helgað líf mitt því að starfa sem lögreglumaður og ég hef starfað í tíu ár í lögreglunni. Þetta var framtíðarstarfið mitt og ég hef mikinn metnað fyrir þessu starfi. En að það sé hægt að svipta fótunum svona undan mér út af fölskum ástæðum, ég er ekki viss um að ég vilji aftur vera í þeirri stöðu."