Fólk með lifrarbólgu C á Íslandi fær enn ekki ný lyf sem geta upprætt veiruna, vegna þess að þau rúmast ekki innan ramma fjárveitinga. Þetta er einsdæmi að mati Sigurðar Ólafssonar, setts yfirlæknis meltingarlækninga á Landspítalanum, og hann segir ástandið vekja furðu og hneykslan hjá læknum erlendis.
Sigurður skrifar um málið í leiðara nýjasta Læknablaðsinsa, en fjölmiðlar greindu frá því fyrir rúmum mánuði að lyfin fáist ekki hér á landi. Sigurður gagnrýnir ástandið mjög, og segir málið smánarblett á íslensku samfélagi. „Þessi staða á sér ekki hliðstæðu í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við. Ég efast reyndar um að það eigi sér fordæmi í heilbrigðiskerfi Íslendinga á síðari árum að svo stórum hópi sjúklinga með alvarlegan sjúkdóm sé neitað um jafnáhrifaríka meðferð - meðferð sem íbúum annarra Norðurlandaþjóða stendur til boða.“
Miklar framfarir hafa orðið í meðferð sjúkdómsins undanfarin ár og Sigurður segir lækna um allan heim upplifa „ævintýralega tíma.“ Nýju lyfin lækna langflesta af lifrarbólgu og þau hafa einnig litlar aukaverkanir. „Á sama tíma og þessum sigri læknisfræðinnar er fagnað hefur skuggi hvílt yfir meðferð sjúklinga með lifrarbólgu C hér á landi.“
Talið er að um 800 til þúsund manns á Íslandi séu með sjúkdóminn. Sigurður segst telja að allir sem að heilbrigðisþjónustu koma vilji að Íslendingar geti notið bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu, en spyr hvernig svona lagað geti gerst hjá þjóð sem flokkist meðal auðugri þjóða í heiminum. „Það sem skiptir mestu máli núna er að lausn fáist skjótt þannig hægt sé að hefja meðferð með nýju lyfjunum hjá sjúklingum með lifrarbólgu C, sérstaklega þeim sem eru í mjög brýnni þörf, þannig að þessi smánarblettur á okkar samfélagi haldi ekki áfram að stækka.“