Stjórnendur móðurfélags Actavis hafa ákveðið að flytja framleiðslu lyfjaverksmiðju Actavis á Íslandi úr landi og til annarra framleiðslueininga samstæðunnar. Þetta er gert í hagræðingaskyni og er líður í tryggja samkeppnishæfni fyrirtækisins, segir í tilkynningu frá Actavis til fjölmiðla í dag. Um 300 starfsmenn vinna við lyfjaframleiðslu hér á landi, af samtals um 700 starfsmönnum hérlendis. Framleiðsla lyfjaverksmiðjunnar verður flutt í skrefum, fyrst frá árslokum 2016 en gert er ráð fyrir að hún verði lögð niður árið 2017. Tekið er fram að önnur starfsemi á Íslandi helst óbreytt.
„Önnur starfsemi á Íslandi verður óbreytt en hérlendis er fjölbreytt alþjóðleg starfsemi, m.a. á sviði lyfjaþróunar fyrir alþjóðamarkaði, skráningarsvið sem ber ábyrgð á skráningum og viðhaldi markaðsleyfa út um allan heim, alþjóðlegt gæðasvið og fjármálasvið, auk sölu- og markaðssviðs sem sinnir Íslandsmarkaði, sem og ýmis stoðsvið. Þá eru hér á landi höfuðstöðvar Medis, dótturfélags fyrirtækisins, sem selur lyf og lyfjahugvit Actavis til annarra lyfjafyrirtækja. Um það bil 300 starfsmenn eru hjá framleiðslueiningunni á Íslandi en um það bil 400 starfsmenn í öðrum einingum fyrirtækisins hér á landi,“ segir í tilkynningu.
Robert Steward, forstjóri samheitalyfjasviðs og alþjóðaframleiðslu samstæðunnar segir í tilkynningunni að hann vilji sérstaklega taka fram að ákvörðunin endurspegli ekki frammistöðu starfsmanna, enda hafi einingin á Íslandi skilað framúrskarandi árangri undanfarin ári og verið til fyrirmyndar þegar kemur að gæðastjórnun, öryggismálum og þjónustu við viðskiptavini. „Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma til móts við starfsfólk okkar til að auðvelda aðlögun að breyttum aðstæðum. Við munum veita stuðning, bjóða upp á þjálfun og umbuna starfsfólkinu sérstaklega fyrir að vinna með okkur í gegnum þessar breytingar. Að lokum vil ég leggja áherslu á að við erum ekki að fara frá Íslandi – við munum halda áfram að byggja upp þær öflugu einingar sem hér starfa svo sem á sviði þróunar, skráninga, gæðamála, fjármála og sölu- og markaðsmála. Þá verða höfuðstöðvar Medis áfram hér á landi,“ segir hann.
Miklar breytingar undanfarin ár
Miklar breytingar hafa orðið á eignarhaldi og rekstri Actavis undanfarin ár, með yfirtökum og samrunum innan lyfjageirans. „Eftir nýlegan samruna við bandaríska frumlyfjafyrirtækið Allergan hefur fyrirtækið breyst frá því að vera öflugt samheitalyfjafyrirtæki í leiðandi alhliða lyfjafyrirtæki sem sinnir jöfnum höndum þróun, framleiðslu og markaðssetningu frumlyfja, samheitalyfja, lausasölulyfja og líftæknilyfja. Í dag er fyrirtækið orðið eitt af 10 stærstu lyfjafyrirtækjum í heimi, með starfsemi í 100 löndum og yfir 30.000 starfsmenn,“ segir í tilkynningunni.
„Að undanförnu hefur verið unnið að yfirgripsmikilli greiningu á framleiðslustarfsemi samstæðunnar víða um heim til þess að hámarka nýtingu á framleiðslugetu samstæðunnar. Niðurstöður þeirrar úttektar eru þær að aðrar verksmiðjur samstæðunnar hafa svigrúm til að taka við þeim vörum sem framleiddar eru á Íslandi. Með viðbótarnýtingu tækja og mannafla, hagstæðu rekstrarumhverfi og auknu framleiðslumagni eykst hagræðing til muna.“