Sviðsráð Heilbrigðisvísindasviðs Stúdentaráðs og nemendafélög heilbrigðisgreina við Háskóla Íslands lýsa yfir þungum áhyggjum vegna verkfalls heilbrigðisstarfsmanna á heilbrigðisstofnunum víða um land. Nú þegar hafa 533 starfsmenn heilbrigðisstofananna lagt niður störf víða um land. Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu frá sjö félögum námsmanna við Háskóla Íslands.
„Enginn vafi leikur á að verkfallið hefur veruleg áhrif á starfsemi Landspítalans, Sjúkrahússins á Akureyri og fleiri stofnanir. Þjónusta við sjúklinga mun skerðast en einnig mun verkfallið óumflýjanlega hafa áhrif á verklega kennslu nemenda við Heilbrigðisvísindasvið. Þar má meðal annars nefna þátttöku í aðgerðum, prófaundirbúning og dýrmæta reynslu sem aðeins verður fengin undir handleiðslu menntaðra heilbrigðisstarfsmanna og fellur niður við verkföll þeirra. Ekki bætir úr skák að gífurlegt álag er á sjúkrastofnunum þar sem enn er verið að vinna úr biðlistum eftir læknaverkfallið og inflúensufaraldurinn í vetur olli því að nýting sjúkrahúsrýma fór yfir 100%,“ segir í tilkynningunni.
Sviðsráð lýsir yfir stuðningi við verkfallsaðgerðir heilbrigðisstarfsfólks í Bandalagi háskólamanna, segir í tilkynningunni. Ótækt er að geislafræðingar, náttúrufræðingar, ljósmæður, lífeindafræðingar, sálfræðingar, sjúkraþjálfarar og aðrir háskólamenntaðir heilbrigðisstarfsmenn fái ekki greidd laun í samræmi við menntun og reynslu.
Sviðsráð Heilbrigðisvísindasviðs Stúdentaráðs Háskóla ÍslandsEnn fremur hvetur Sviðsráð stjórnvöld til að bregðast við, sjúkrastofnanir landsins mega ekki við auknu álagi og frestun aðgerða hefur áhrif bæði á þjónustu og menntun framtíðarstarfsfólks heilbrigðiskerfisins.
Anima, félag sálfræðinema
Curator, félag hjúkrunarfræðinema
Félag læknanema
FLOG, félag lífeinda- og geislafræðinema
Tinktúra, félag lyfjafræðinema
Virtus, félag sjúkraþjálfunarnema