Lýstar kröfur í þrotabú BG-5, áður Gaums, nema 38 milljörðum króna, en skiptafundur verður haldinn í lok mánaðarins. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Jón Ásgeir Jóhannesson fjárfestir og fyrrverandi forstjóri Baugs, var stærsti eigandi félagsins, með 41 prósent hlut, en samtals átti fjölskylda hans um 97 prósent hlut í félaginu. Stærsta eign félagsins á árum áður var 75 eignarhlutur í Baugi, en önnur félög sem félagið átti voru 1988 ehf., Aðföng, B2B ehf., B2B holding, Barney, Baugur Group hf., Bónus, Fjárfestingafélagið Gaumur ehf., Gaumur holding, Hagar, Hagkaup, Illum A/S, Stoðir Invest, Styrkur Invest, Thu Blasol og Verslunin Útilíf, að því er fram kemur í Morgunblaðinu. Meira og minna öll félögin sem Gaumur áttu eru gjaldþrota eða fjárhagsstaða þeirra í algjöru uppnámi.
Skiptastjóri félagsins, Jóhannes Karl Sveinsson hrl., segir að þrotabú Baugs og gamli Kaupþing banki séu stærstu kröfuhafar félagsins. Félagið var með um 40 milljarða í hreinni eign árið 2007 en hefur ekki skilað ársreikningi frá því ári.