Lögreglan í Kaupmannahöfn handtók og ákærði í morgun mann sem grunaður er um aðild að hryðjuverkaárásunum í borginni fyrir hálfum mánuði. Þetta er þriðji maðurinn sem er handtekinn vegna málsins, auk þess sem lögregla skaut árásarmanninn Omar Abdel Hamid El-Hussein til bana daginn eftir árásirnar.
Lögreglan hefur þegar handtekið og ákært tvo aðra menn fyrir að hafa aðstoðað El-Hussein við að útvega vopn og fyrir að hafa hýst hann eftir árásirnar.
Samkvæmt heimildum danska ríkisútvarpsins, DR, er maðurinn sem var handtekinn í morgun grunaður um svipaða aðild að málinu.
Tveir létust í hryðjuverkaárásunum í Kaupmannahöfn 14. og 15. febrúar síðastliðinn. Omar El-Hussein réðst fyrst á fund í menningarhúsinu Krudttønden á Austurbrú, þar sem fram fór umræða um skopteikningar, og svo á bænahús gyðinga á Krystalgade. Sænski skopmyndateiknarinn Lars Vilk, sem var á fundinum í Krudttønden er farinn í felur eftir árásirnar.