Danski fjárfestirinn Lars Grundtvig, sem hefur verið meðal stærstu erlendu fjárfesta í íslensku kauphöllinni, seldi í síðustu viku hluta af eign sinni í Marel, og nemur eignarhlutur hans nú 3,6 prósent. Í lok árs 2013 var Grundtvig, í gegnum félagið Grundtvig Invest A/S, næst stærsti hluthafi félagsins með 8,4 prósent hlut.
Hann hefur því meira en helmingað eign sína í Marel frá þeim tíma.
Lars Grundtvig hefur harðlega gagnrýnt Seðlabanka Íslands vegna fjármagnshaftanna, og skrifaði meðal annars opið bréf til Más Guðmundssonar seðlabankastjóra í Markaðinn, fylgirit Fréttablaðsins um efnahagsmál, 26. nóvember, þar sem hann sagði stöðuna sem uppi væri, með fjármagnshöftin, minna á þjófnað. „Ég er nú 73 ára og sú stund nálgast óðum að fyrirtæki mitt gengur að erfðum [...] Þótt færa megi fyrir því rök að íslenskt efnahagslíf sé enn að ná sér, þá á hið sama við um mörg önnur Evrópulönd. Þau lönd, Kýpur þar á meðal, geta hins vegar ekki reitt sig á gjaldeyrishöft og torvelt að sjá af hverju Ísland ætti að geta það [...] Íslensk stjórnvöld leika rússneska rúllettu með aðgang Íslands að fjármagnsmörkuðum Evrópu og að því líður að aðildarríki Evrópusambandsins og stjórnmálamenn þeirra taka að spyrja hvers vegna Íslandi sé enn heimill aðgangur að innri markaði Evrópu á meðan landið hunsar eina af helgustu greinum Samningsins um evrópska efnahagssvæðið (banni við fjármagnshöftum),“ sagði Grundtvig meðal annars.
Heildarvirði eignarhlutar Grundtvig í Marel nemur nú um 4,5 milljörðum. Gengi bréfa Marel hefur hækkað skarpt undanfarin misseri, en gengi bréfanna er nú 171. Í lok október í fyrra var gengið 119.