Æskilegt væri að koma á virkri samkeppni á heildsölumarkaði með rafmagn til að minnka sóun á raforku, en raunhæfasta leiðin til þess væri með því að skipta upp Landsvirkjun. Þetta skrifar Sigurður Jóhannesson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar HÍ, í nýjasta tölublaði Vísbendingar sem birtist á föstudaginn.
Samkvæmt Sigurði hafa orkupakkar Evrópusambandsins séð til þess að samkeppni hafi aukist á sölu rafmagni víða um álfuna, þótt hún hafi ekki aukist af sama krafti alls staðar. Hér á landi virðist samkeppni vera nokkuð lífleg í smásölu á rafmagni, en mun minni í heildsölu, þar sem Landsvirkjun framleiðir um 60 prósent af öllu rafmagni sem selt er hér á landi á almennum markaði.
Vegna stöðu sinnar segir Sigurður að Landsvirkjun ráði miklu um heildsöluverð rafmagns, en samkvæmt honum getur fyrirtækið haldið verðinu stöðugu með því að minnka framleiðslu þegar lítið er keypt af rafmagni og aukið hana svo aftur þegar eftirspurnin eykst. Síðustu fjögur árin hefur rafmagnsverð hérlendis einmitt haldist stöðugt, á meðan það hefur tekið miklum breytingum í Skandinavíu.
Minna til spillis með virkri samkeppni
„Við fyrstu sýn finnst mönnum ef til vill að verðsveiflur valdi aðeins óþægindum, en raunar gegna þær mikilvægu hlutverki,“ skrifar Sigurður í greininni sinni. „Þegar verð lækkar er meira notað af því sem nóg er til af. Minna fer til spillis.“ Einnig segir hann að hátt verð gefi neytendum til kynna að varan sé verðmæt og fara beri sparlega með hana.
Sigurður sagði að hægt væri að fara ýmsar leiðir til að fjölga fyrirtækjum á heildsölumarkaði með rafmagni, en telur þó uppskiptingu Landsvirkjunar í smærri einingar vera raunhæfustu leiðina. Hann segir að þessi tillaga sé ekki ný af nálinni, en hún kom fram í skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) árið 2008 og í viðtali við forstjóra HS Orku hjá Viðskiptablaðinu árið 2018.
Þar að auki segir Sigurður að Bretland hafi ágæta reynslu af sams konar uppskiptingu sem átti sér stað í kjölfar lagabreytinga árið 1989. Samkvæmt honum hefur samkeppni vaxið jafnt og þétt á rafmagnsmarkaði í Englandi og Wales og hefur þar hlutur stærstu framleiðenda minnkað og hlutur lítilla fyrirtækja vaxið.
Hægt er að lesa grein Sigurðar í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.