Leyfilegur heildarafli í makríl fyrir komandi fiskveiðiár, 2014/2015, verður aukinn um ríflega 20 þúsund tonn samkvæmt ákvörðun Sigurðar Inga Jóhannssonar, ráðherra sjávarútvegsmála. Ákvörðunin byggir á því að ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknarráðsins (ICES) var hækkuð í 1.011 þúsund tonn í maí síðastliðnum og er hlutur Íslands 16,6 prósent af því samkvæmt ákvörðun ráðherra. Útgerðarfyrirtæki sem stunda makrílveiðar hafa mikla hagsmuni af þessari aukningu á aflaheimildum, en makrílveiðar hafa virkað sem vítamínsprauta fyrir íslenska hagkerfið á undanförnum fimm árum eftir að makríll fór að finnast og veiðast í vaxandi mæli í íslenskri lögsögu. Makrílveiðarnar komu þannig eins og himnasending inn í hagkerfið sem var verulega laskað eftir hrun fjármálakerfisins dagana 7. til 9. október 2008.
Miklar tekjur
Heildarútflutningstekjur af makrílveiðum námu meira 21 milljarði í fyrra og má gera ráð fyrir að þær aukist enn meira á komandi fiskveiðiári.
Sérstaklega munar miklu um þessar auknu makrílveiðar fyrir stóru útgerðirnar, þar ekki síst eina skráða sjávarútvegsfyrirtækisins á markaði, HB Granda. Rekstur þeirra batnar við þessa möguleika til aukinna veiða, svo lengi sem verð og aðgengi á erlendum mörkuðum er viðunandi og helst gott.
Ráðgjöf Hafró fylgt
Sigurður Ingi Jóhannsson segir í tilkynningu vegna ákvörðunar um veiðiheimildir á komandi fiskveiðiári að hann vilji fyrst og fremst viðhalda orðspori Íslands. „Mér finnst mikilvægt að viðhalda orðspori okkar meðal fiskveiðiþjóða og á markaðssvæðum sem sjálfbær nýtingarþjóð sem byggir ákvarðanir sínar á vísindum. Mér finnst einnig mikilvægt að við tryggjum sem best gæði og getu til rannsókna. Því kalla ég eftir samstarfi og samráði vísindamanna og sjómanna því reynsla sjómanna stangast stundum á við niðurstöðu vísindanna.“
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_07_03/1[/embed]
Lítils háttar aukning í þorski
Samkvæmt ákvörðun ráðherra verður heildarafli í þorski 218 þúsund tonn á komandi fiskveiðiári, en hann var 216 þúsund tonn. Mesta hlutfallslega breytingin er í grálúðu, en samkvæmt ákvörðun ráðherra verður heildarafli í þeirri tegund 25 þúsund tonn, fyrir allt veiðisvæðið, en hann var ríflega fjórtán þúsund tonn.