Úthlutun á makrílkvóta verður tímabundin til sex ára og tíu króna viðbótarveiðigjald verður lagt ofan á hvert kíló af veiddum makríl, samkvæmt nýjum frumvörpum Sigurðar Ingi Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Veiðigjöld se útgerðir greiða í ríkissjóð á næsta ári verða því, samkvæmt áætlunum, 12,4 milljarðar króna. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í morgun. Frumvörpin voru afgreidd í ríkisstjórn í gær.
Tekið verður upp eitt veiðigjald í stað tveggja áður og það mun áfram taka mið af afkomu útgerðarinnar sem það leggst á. Veiðigjaldið verður staðgreitt, innheimt mánaðarlega og mun miðast við landaðan afla í stað þess að miða við úthlutaðar aflaheimildir. Sjálft veiðigjaldið á að skila 10,9 milljörðum króna í brúttótekjur til ríkissjóðs auk þess sem viðbótarveiðigjald á makríl á að skila um 1,5 milljarði króna, miðað við 150 þúsund tonna kvóta í tegundinni.
Í frétt Morgunblaðsins segir að frumvarpið um veiðigjöld verði til þriggja ára en falli svo úr gildi. Viðbótargjald á makríl mun gilda í sex ár og er hugsað sem inngöngugjald fyrir að setja makrílstofninn inn í kvótakerfið. Úthlutun makrílkvóta verður tímabundin.
Veiðigjöld vegna fiskveiðiársins 2013/2014 voru 9,2 milljarðar króna og því er um töluverða hækkun á gjöldunum að ræða. Veiðigjöld árið áður voru 12,8 milljarðar króna, sem í krónum talið er lítið eitt hærra en áætluð veiðigjöld á grundvelli frumvarps Sigurðar Inga.