Mál sem Arion banki höfðaði gegn Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands (FME) til að fá semkt sem eftirlitið lagði á bankann í fyrrasumar er á dagskrá héraðsdóms Reykjavíkur í haust. Frá þessu er greint í árshlutareikningi Arion banka sem var birtur í lok síðasta mánaðar. Þar kemur enn fremur fram að FME hafi skilað inn greinargerð vegna málsins í nóvember í fyrra.
Sektin, sem var upp á 87,7 milljónir króna, var lögð á vegna þess að Arion banki birti ekki innherjaupplýsingar nægjanlega tímanlega.
Snýst um frétt sem Mannlíf birti
Forsaga málsins er sú að 6. september í fyrra var haldinn fundur hjá nefnd sem kallast Insider Disclosure Forum (indifo) innan Arion banka. Til umræðu á fundinum voru fyrirhugaðar skipulagsbreytingar og hópuppsagnir hjá bankanum.
22. september 2019 birtist frétt á vefnum Mannlíf.is með fyrirsögninni „Allt að 80 manns sagt upp hjá Arion banka“. Í fréttinni var fullyrt að skipulagsbreytingar væru í farvatninu hjá Arion banka og að uppsagnir myndu hefjast daginn eftir. Sama dag birti Kjarninn fréttaskýringu um að þrálátur orðrómur væri um að umfangsmiklar uppsagnir væru í farvatninu hjá Arion banka.
Indifo-nefndin ræddi frétt Mannlífs daginn eftir, þann 23. september. Nefndarmenn voru sammála um að frétt Mannlífs væri röng, bæði væri tala þeirra sem ætti að segja upp ekki nákvæmlega rétt né dagsetning uppsagna. Því væru enn skilyrði fyrir hendi til að fresta birtingu á innherjaupplýsingum.
Tilkynnt um uppsagnir 26. september
Þremur dögum síðar, 26. september 2019, var birt tilkynning frá Arion banka um að stjórn bankans hefði á fundi sínum þá um morguninn samþykkt nýtt skipulag sem taka ætti gildi sama dag. Um eitt hundrað manns myndu missa vinnuna vegna þessa.
Haft var eftir Benedikt Gíslasyni, bankastjóra Arion banka, að rekstrarkostnaður bankans væri of hár og að skipulag bankans tæki ekki nægjanlega vel mið af núverandi markaðsaðstæðum og þörfum atvinnulífsins.
FME ákvað að taka til athugunar hvort að þær upplýsingar sem ræddar höfðu verið á nefndarfundinum 6. september, og var ákveðið að fresta birtingu á, væru sambærilegar og þeim sem birtust í frétt Mannlífs 22. september 2019.
„Marktæk áhrif á markaðsverð“
FME komst að þeirri niðurstöðu að svo væri. Í niðurstöðukafla ákvörðunar eftirlitsins sagði meðal annars að upplýsingarnar sem um ræddi væru líklegar til að hafa „marktæk áhrif á markaðsverð“ Arion banka enda um umfangsmiklar breytingar á lykilstærðum í rekstri bankans að ræða.
Að mati FME vantaði mikið upp á að Arion banki virti þá skyldu sem á bankanum hvíldi um að birta innherjaupplýsingarnar eins fljótt og auðið var eftir að ljóst var að ekki hefði tekist að gæta trúnaðar um þær. „Með því að birta ekki innherjaupplýsingar á þeim tímapunkti hefðu fjárfestar með réttu getað gert ráð fyrir að frétta Mannlífs væri orðrómur sem ætti ekki við rök að styðjast.“
Eftirlitið ákvað að sekta Arion banka um 87,7 milljónir króna. Við ákvörðun sektarfjárhæðar var meðal annars tekið mið af því að brot bankans hafi staðið í fjóra daga.
Í árshlutareikningi Arion banka sem birtur var í fyrrahaust var greint frá því að bankinn hefði höfðað mál fyrir héraðsdómi Reykjavíkur til að fá niðurstöðu FME hnekkt. Bankinn telur að umfjöllun Mannlífs hafi falið í sér getgátur byggðar á þegar birtum upplýsingum en haustið 2019 hafði ítrekað birst umfjöllun í fjölmiðlum um að vænta mætti breytinga og hagræðingar í rekstri bankans. Af þessu leiddi að skilyrði fyrir frestun á birtingu innherjaupplýsinga voru enn uppfyllt að mati bankans.