Í dag fer fram aðalmeðferð fyrir Hæstarétti í meiðyrðamáli Egils Einarssonar á hendur Inga Kristjáni Sigurmarssyni og Sunnu Ben Guðrúnardóttur. Egill, betur þekktur sem Gillz, stefndi þeim vegna ummæla á Facebook, sem hann taldi vera ærumeiðandi, og samsettrar ljósmyndar sem birt var á Instagram. Þess má geta að Ingi Kristján er sonur Álfheiðar Ingadóttur, fyrrverandi ráðherra og þingmanns Vinstri grænna, og Sigurmars K. Albertssonar lögmanns
Ingi Kristján birti breytta mynd af Agli á samfélagsmiðlinum Instagram og skrifaði við myndina: "Fuck you rapist bastard." Sunna Ben skrifaði ummæli inn á Facebook þar sem hún fór hörðum orðum um Egil og kallaði hann meðal annars nauðgara.
Ingi Kristján og Sunna Ben voru sýknuð í Héraðsdómi Reykjavíkur í nóvember á síðasta ári, og Egill dæmdur til að greiða málskostnað, samtals 400 þúsund krónur. Engu að síður voru ummæli Sunnu dæmd dauð og ómerkt. Egill áfrýjaði dómniðurstöðunni til Hæstaréttar, en lögmaður hans er Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður.
Eins og áður segir fer fram málflutningur í málinu fyrir Hæstarétti í dag, en óvíst er hversu langan tíma rétturinn tekur sér til að kveða upp dóm sinn í málinu.