Malín Brand, önnur kvennanna sem var handtekin á föstudag vegna fjárkúgunarmáls gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra, segist ekki hafa tekið þátt í því að skrifa bréf til Sigmundar og því ekki í tilraun til fjárkúgunar. Hún tjáir sig í viðtali við Vísi. „Kjarni málsins er að þarna blandast ég inn í atburðarás sem ég hvorki skipulagði né tengdist nokkurn hátt nema fjölskylduböndum.“
Hún segir að Hlín Einarsdóttir, systir hennar og fyrrverandi ritstjóri Bleikt.is, hafi skrifað og sent bréfið. Hún hafi ekki trúað því að nokkur tæki bréfið alvarlega. Malín viðurkenndi fyrir lögreglu að hafa haft vitneskju um málið og að hún keyrði systur sína á vettvang í Hafnarfirði, þar sem forsætisráðherrann átti að skilja eftir fjármuni samkvæmt fyrirmælum bréfsins. „Ég bíð í bílnum á meðan hún ætlar að athuga hvort sitt ætlunarverk hafi tekist en þegar ég sé í hvað stefnir þá ætla ég bara að keyra í burtu, því þetta var ekki það sem ég hafði hugsað mér,“ segir hún við Vísi.
„Á þessu augnabliki horfir maður á lífið sitt, sem maður er búinn að byggja upp og hafa mikið fyrir, að vera góður blaðamaður og standa sig í vinnu og vera trúverðugur, eiga traust fólks, eins og ég hef átt, yfir í það að vera einhvern veginn höfð að fífli. Dálítið blindaður af fjölskyldutengslum,“ segir Malín við Vísi um handtökuna og bætir við: „Allt í einu er mannorðið bara farið af því að maður blandaðist inn í vitleysu.“