Lögreglan í Malmö í Svíþjóð vill að eftirlit við Eyrarsundsbrúna, milli Danmerkur og Svíþjóðar verði stóraukið. Ástæðan er vopnasmygl frá Danmörku og yfir sundið. „Viljum ekki vera Chicago Norðursins,“ segir aðstoðaryfirlögregluþjónn í Malmö.
Borgin Malmö við Eyrarsund, gegnt Kaupmannahöfn, er þriðja stærsta borg Svíþjóðar, íbúarnir um 300 þúsund talsins. Borgarbúar eiga uppruna í 177 löndum um veröld víða og um það bil 30 prósent þeirra eru fæddir í löndum utan Svíþjóðar. Fjölmennastir „aðkomumanna“ eru Írakar, Danir, fólk frá fyrrum Júgóslavíu og Pólverjar. Rúm 15 prósent borgarbúa eru án atvinnu og hlutfall atvinnulausra hvergi hærra í landinu, landsmeðaltalið er 8.5 prósent.
Ekki verður með sanni sagt að í þessari þriðju stærstu borg Svíþjóðar lifi allir í sátt og samlyndi. Öðru nær. Á undanförnum árum hefur morðum, skotárásum, ránum og líkamsárásum fjölgað mikið og á allra síðustu mánuðum hafa fjölmargar sprengjur sprungið í borginni.
Glæpa- og innflytjendaklíkur
Malmö skiptist í 10 hverfi. Eitt þeirra er Rosengaarden þar sem um 24 þúsund manns búa. Um 86 prósent þeirra eru af erlendum uppruna, þar af eru 60 prósent fædd utan Svíþjóðar. Þriðjungur íbúa Rosengaarden er yngri en 18 ára og 15 prósent prósent þessara ungmenna hafa hlotið dóm, margir fleiri en einn eða tvo. Hvergi í Svíþjóð er hlutfall ungra afbrotamanna jafn hátt. Átök hópa ungmenna, af ólíkum uppruna eru algeng í Rosengaarden hverfinu, iðulega af litlu tilefni.
Önnur skýring á ástandinu í borginni er rakin til þess að þar hafa margar glæpaklíkur (rokkarar) aðsetur og hefur fjölgað á undanförnum árum. Klíkur þessar, að minnsta kosti sumar þeirra, eru í tengslum við Vítisengla, Bandidos, Black Cobra og fleiri slíkar sem hafa aðsetur í Kaupmannahöfn. Milli þessara hópa kemur iðulega til átaka, þar sem hnífar og byssur eru dregin úr slíðrum.
Lögreglan hefur lokað augunum fyrir vandanum
Tobias Barkman blaðamaður á Sydsvenska Dagbladet og einn höfunda bókarinnar „Mafiakrig“ sem fjallar um glæpaklíkur í Malmö segir að lögreglan hafi árum saman leitt hjá sér sívaxandi glæpastarfsemi í borginni. Sú starfsemi tengist ekki síst verslun með eiturlyf.
Tölur sýna að sænsku lögreglunni, ekki síst í Malmö verður sjaldnast mikið ágengt við að upplýsa glæpi. Það gildir jafnt um morð, ofbeldi, rán og vopnuð átök.
Malmö er hliðið að Svíþjóð og það hlið er galopið
Sænska lögreglan telur að ein helsta skýring á ástandinu í Malmö sé sú að þangað flæði, óhindrað og í stórum stíl, vopn sem komi víðsvegar að úr Evrópu í gegnum Kaupmannahöfn. Nánast ekkert eftirlit sé með umferðinni um Eyrarsundsbrúna og um landamærin milli Svíþjóðar og Danmerkur.
Í júní síðastliðnum fóru rúmlega 660 þúsund ökutæki um Eyrarsundsbrúna. Sáralítið er fylgst með almennri umferð einkabíla, ef frá eru talin gjaldhliðin sem eru Svíþjóðarmegin sundsins. Af þessum fjölda voru 24 þúsund vörubílar en þeir fara nær allir gegnum tolleftirlit við gjaldhliðin. Um það bil 30 þúsund manns fara yfir sundið daglega vegna vinnu, margir þeirra akandi í eigin bíl.
Á síðasta ári lagði sænska lögreglan hald á 71 skotvopn við Eyrarsundsbrúna og í Malmö. Mats Karlsson aðstoðaryfirlögregluþjónn í Malmö segir að þetta sé aðeins brot af þeim fjölda vopna sem komi frá Danmörku til Malmö á hverju ári. Hann segist jafnframt handviss um að flutningur vopna til Svíþjóðar yfir Eyrarsundsbrúna fari vaxandi en einnig berist fjöldi vopna með póstinum, einkum frá Serbíu og öðrum ríkjum fyrrum Júgóslavíu.
Sænska lögreglan telur að hún nái aðeins að komast yfir mjög lítinn hluta þeirra vopna sem smyglað er til Malmö á ári hverju. Mynd: EPA
Ekki hægt að stoppa hvern einasta bíl
Það segir sig sjálft að útilokað er að stöðva og skoða hvern einasta bíl sem ekur yfir brúna. Slíkt myndi kosta offjár og miklar tafir. Þarna yrði því að koma til annars konar eftirlit. Gerd Battrup lektor við Syddansk Universitet, sem hefur um árabil rannsakað landamæragæslu og samvinnu lögreglu óháð landamærum, segir að samstarf dönsku og þýsku lögreglunnar sé gott dæmi um slíka samvinnu. Einhverra hluta vegna hafi ekki tekist að koma á nánu samstarfi dönsku og sænsku lögreglunnar. Samstarf vopnasmyglaranna beggja vegna Eyrarsunds sé bæði meira og nánara en samstarf lögreglunnar.
Finn Lauritzen sem er framkvæmdastjóri Eyrarsundsnefndarinnar, sem vinnur að aukinni samvinnu á Eyrarsundssvæðinu, tekur í sama streng. Hann segir að sú mynd sem dregin sé upp í sjónvarpsmyndaflokknum „Brúnni,“ þar sem danska og sænska lögreglan vinna náið saman, sé því miður víðs fjarri raunveruleikanum. Talsmaður dönsku lögreglunnar segir hinsvegar að lögregla beggja vegna sunds vinni náið saman en auðvitað megi alltaf gera betur.
Tormod Christensen aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá rannsóknardeild dönsku lögreglunnar segir að þar á bæ sé fylgst grannt með ástandinu í Malmö. Danska lögreglan muni gera allt sem í hennar valdi standi til að hindra að sú alda glæpa og ofbeldis sem íbúar Malmö hafi fengið að kynnast berist yfir sundið. Í Malmö er tónninn í svipuðum dúr. „Við munum gera allt sem við getum til að breyta ástandinu til hins betra og koma í veg fyrir að Malmö verði miðstöð glæpamanna. Malmö má ekki verða Chicago Norðursins,” sagði Mats Karlsson aðstoðaryfirlögregluþjónn.