Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA) var með tæpar 4,3 milljónir í tekjur á mánuði á síðasta ári, að því er fram kemur í Tekjublaði Frjálsrar verslunar. Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) var með tæpar fjórar milljónir í tekjur á mánuði og Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins með 3,3 milljónir.
Tekjublaðið, þar sem tekjur 4.000 Íslendinga eru opinberaðar á grundvelli upplýsinga á greiddu útsvari samkvæmt álagningarskrám Ríkisskattstjóra (RSK), kom út í dag. Í blaðinu er settur sá fyrirvari að um sé að ræða útsvarsskyldar tekjur á árinu 2020 og þurfi þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi.
„Í launum sumra kann að vera falinn bónus vegna ársins 2019, sem greiddur var árið 2020. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá. Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Sleppt er skattfrjálsum dagpeningum, bílastyrkjum og greiðslum úr lífeyrissjóði. Hafa verður í huga að inni í tekjunum getur líka verið einskiptisgreiðsla vegna úttektar á séreignarsparnaði hjá lífeyrissjóði,“ segir í blaðinu.
Í lífskjarasamningunum mátti finna svokallaða lágmarkstekjutryggingu, sem tryggði lágmarks mánaðarlaun fyrir fulla vinnu að meðtöldum álögum, bónusum og aukagreiðslum. Samkvæmt samningunum var lágmarkstekjutryggingin fyrir árið 2020 335 þúsund krónur á mánuði.
Þetta þýðir að Halldór Benjamín var með tæplega þrettánföld lágmarkslaun lífskjarasamninganna fyrir árið 2020 á mánuði í tekjur það árið.
Í Tekjublaðinu er tiltekinn flokkur sem nefnist „Hagsmunasamtök og aðilar vinnumarkaðarins“ en þar eru þau tíu tekjuhæstu með yfir tvær milljónir á mánuði. 82 einstaklingar voru með yfir milljón á mánuði í tekjur árið 2020 í þessum flokki. Á eftir Halldóri Benjamín, Heiðrúnu Lind og Sigurði komu Pétur Þorsteinn Óskarsson framkvæmdastjóri Íslandsstofu með 2,6 milljónir á mánuði í tekjur og Stefán Ólafsson fyrrverandi prófessor og sérfræðingur hjá Eflingu með rúmar 2,5 milljónir.