Tillögur fimm teyma að umferðarstokkum á Sæbraut og Miklubraut og skipulagi á yfirborði í grennd við þá voru kynntar á opnum fundi Reykjavíkurborgar í morgun og hafa verið gerðar aðgengilegar á sérstökum vefsvæði á vegum borgarinnar.
Þessar tillögur komu í gegnum svokallaða hugmyndaleit sem borgaryfirvöld blésu til á síðasta ári, en Reykjavíkurborg hefur núna í kjölfarið heimild til að vinna með tillögurnar áfram, breyta þeim eða jafnvel til þess að fela öðrum útfærslu þeirra.
Þannig hefur með þessari hugmyndaleit í reynd myndast eins konar hugmyndabanki að útfærslu skipulags í kringum Miklubrautarstokk og Sæbrautarstokk, en báðar framkvæmdirnar eru hluti af Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði í upphafi fundarins að höfuðborgarsvæðið stæði á tímamótum í samgöngu- og skipulagsmálum og að verkefnin sem væri verið að ráðast í þessi misserin væru svo stór og mörg að þau hefðu ekki öll fengið þá umræðu og rýni sem þau ættu skilið.
Miklabrautin „ógn við lífsgæði“
Til stendur að Miklubrautarstokkur verði byggður í tveimur áföngum, fyrst frá Snorrabraut að Rauðarárstíg og síðan frá Rauðarárstíg að Kringlumýrarbraut. Borgarstjóri sagðist hafa fundið það á síðustu árum að stuðningur við þetta verkefni, sem áætlað er að kosti yfir 20 milljarða króna, væri mikill.
„Miklubrautin er orðin ógn við lífsgæði og heilsu fólks á stórum svæðum í borginni og sérstaklega í Hlíðunum,“ sagði borgarstjóri og nefndi að á fundi með íbúum í Hlíðahverfi árið 2018 hefðu nær allir fundargestir jafnvel lýst sig samþykka því að byggja húsaröð inn á Klambratún, ef það þýddi að umferðarstokkur á Miklubraut gæti orðið að veruleika.
Reyndar bætti Dagur því við að búið væri að ýta þeim möguleika að byggja inn á Klambratún út af borðinu, en þessi viðbrögð íbúa hefðu undirstrikað hversu gríðarlega stórt lífsgæðamál Miklubrautarstokkur væri fyrir íbúa í Hlíðunum.
Útfærslur teymanna fimm sem skiluðu inn tillögum að þessum stokki eru mismunandi. Eitt teymið leggur til að Bústaðavegur verði einnig niðurgrafinn í stokki að hluta, þannig að öll umferð sem ekki eigi leið inn í hverfið verði neðanjarðar.
Sæbrautarstokkur tengi Voga við Elliðaárnar
Sæbrautarstokkurinn á að liggja frá stóru mislægu slaufugatnamótunum í Elliðaárdalnum og rúman kílómeter inn í Vogahverfi.
Tillögur teymanna fimm gera allar ráð fyrir því að ofan á stokknum og til hliðar við hann gæti orðið talsvert mikið magn bæði íbúðar- og atvinnuhúsnæðis eða umfangsmikil græn svæði, auk tengistöðvar fyrir Borgarlínu, sem á að verða þungamiðja í nýrri Vogabyggð.