Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir að losun hafta, það er fyrstu skrefin sem nú eru í undirbúningi, muni ekki hafa áhrif á gengi krónunnar til veikingar. „Ég hef ekki áhyggjur af því. Við munum einfaldlega tryggja að svo verði ekki,“ sagði Már í viðtali við Kjarnann í morgun, eftir fund í Seðlabanka Íslands þar sem nýjasta útgáfa Fjármálastöðugleika var kynnt.
Í formála sínum í Fjármálastöðugleika, segir Már að forsendur fjármálastöðugleika í hagkerfinu hafi haldið áfram að batna samfara því að efnhagsbati hafi almennt haldið áfram. Helsti áhættuþáttur fjármálastöðugleika er losun hafta. Már ítrekar þó að hann hafi ekki áhyggjur af því, þar sem það verði tryggt að losun haftanna, þar sem meðal annars er tekið á greiðslujafnaðarvanda vegna slitabúa föllnu bankanna, muni ekki veikja gengi krónunnar.
Aðspurður um hvort hann hafi áhyggjur af stöðu kjarasamninga, sagði hann of snemmt að segja til um það. „Þetta fer eftir niðurstöðunni. Ef við sjáum almennar hækkanir á vinnumarkaði upp á tveggja stafa tölur, og ég tala nú ekki um háar tveggja stafa tölur, þá getum við ekkert annað gert en brugðist við því með okkar lögbundna hlutverki,“ sagði Már og vitnaði til vaxtahækkana. Sagði hann að það væru engin „geimvísindi“ að samningar um miklar launahækkanir gætu farið út í verðlag, og það myndi kalla á aðgerðir að hálfu bankans.
Viðtal við Má, sem tekið var eftir fundinn, má heyra á meðfylgjandi slóð á Soundcloud svæði Kjarnans.