Áfrýjunardómstóll ÍSÍ kveður upp dóm sinn á þriðjudaginn um meint svindl Arnars Péturssonar í Reykjavíkurmaraþoninu. Arnar kom fyrstur Íslendinga í endamark hlaupsins, sem fram fór laugardaginn 31. ágúst síðastliðinn, rúmum níu mínútum á undan næsta manni og var krýndur Íslandsmeistari karla í maraþoni. Næsti Íslendingur á eftir Arnari var hlauparinn Pétur Sturla Bjarnason, sem sigraði Reykjavíkurmaraþonið árið áður.
Pétur Sturla kærði úrslit hlaupsins til yfirdómnefndar Reykjavíkurmaraþons, og sakaði þar Arnar um svindl í hlaupinu með því að hafa notið liðsinnis tveggja hjólreiðamanna í hlaupinu.
Kæruna byggði Pétur Sturla á 10. grein reglna Reykjavíkurmaraþons, en þar segir: "Hlaupabrautin er eingöngu ætluð keppendum. Ekki er heimilt að fylgja hlaupurum gangandi, hlaupandi, á hjóli eða öðrum farartækjum (undanþága fyrir fylgdarmenn fatlaðra). Það er á ábyrgð þátttakenda að vísa frá þeim sem vilja fylgja." Þá segir í 18. grein reglnanna: "Brot á ofangreindum reglum ógilda þátttökurétt í hlaupinu."
Yfirdómnefnd Reykjavíkurmaraþons vísaði kæru málsins frá. Í úrskurði dómnefndarinnar er viðurkennt að tveir hjólreiðamenn hafi fylgt Arnari þrjá fjórðu hluta hlaupaleiðarinnar, sem hafi verið brot á reglum maraþonsins, en dómnefndinni þótti ekki sannað að hjólreiðamennirnir hafi aðstoðað Arnar í hlaupinu. Þá hefði sigur hans verið það afgerandi að fylgdarmenn hans hefðu ekki haft áhrif á úrslit hlaupsins.
Pétur Sturla kærði niðurstöðu yfirdómnefndarinnar til dómstóls ÍSÍ, sem staðfesti úrskurð yfirdómnefndar. Kærandi áfrýjaði þá þeirri niðurstöðu til áfrýjunardómstóls ÍSÍ, sem mun taka málið fyrir á þriðjudaginn. Þar sem Pétur Sturla er búsettur erlendis mun fulltrúi hans mæta í hans stað við fyrirtöku málsins. Hæstaréttarlögmaðurinn Jón Gunnar Zoëga er forseti áfrýjunardómstóls ÍSÍ.