Marel hf. braut gegn upplýsingaskylduákvæði laga um verðbréfaviðskipti þegar félagið birti ekki tafarlaust innherjaupplýsingar um uppsögn Theo Hoen sem forstjóra og ráðningu Árna Odds Þórðarsonar í starfið í hans stað. Marel féllst á að greiða sátt vegna málsins að fjárhæð 3,3 milljónir króna.
Málsatvik eru þau að þann 30. október 2013 tilkynnti Marel Fjármálaeftirlitinu (FME) um að tekin hefði verið ákvörðun um frestun á birtingu ákveðinna innherjaupplýsinga, en Marel er skráð á íslenskan hlutabréfamarkað. Í samkomulaginu sem FME og Marel gerðu vegna brotsins, og var gert 30. apríl en fyrst birt í morgun, segir: „Hinn 1. nóvember 2013, um kl. 13:20, varð málsaðila ljóst að trúnaður um umræddar innherjaupplýsingar var ekki lengur tryggður. Sama dag, kl. 15:25, var birt tilkynning með umræddum upplýsingum. Liðu því um 125 mínútur frá því að málsaðila varð ljóst að skilyrði frestunar á birtingu innherjaupplýsinga voru ekki lengur til staðar þar til upplýsingarnar voru gerðar opinberar í samræmi við 1. mgr. 122. gr. vvl. Málsaðili hafði samband við Nasdaq OMX Iceland hf. (Kauphöllin) kl. 13:47 og óskaði eftir að viðskipti með hlutabréf í félaginu yrðu stöðvuð tímabundið“.
Ástæða þess að viðskiptin voru stöðvuð tímabundið var að fréttavefurinn DV.is hafði greint frá yfirvofandi ráðningu Árna Odds í starf forstjóra Marel. Ljóst var að um mögulega verðmyndandi innherjaupplýsingar væru að ræða og að þær væru farnar að leka út áður en tilkynnt hefði verið um þær opinberlega. Því var ákveðið að loka fyrir viðskiptin. Um 300 milljóna króna viðskipti voru með bréf í Marel eftir að DV birti frétt sína og þar til að viðskipti með þau voru stöðvuð.
Hægt er að lesa tilkynningu FME um samkomulagið hér.