Alls voru 1.604 nemendur skráðir í nám við tölvunarfræðideildir í Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík árið 2014. Það er fjölgun um 145,3 prósent frá því fyrir fimm árum, þegar 654 nemendur voru skráðir í tölvunarfræði við báða skólana.
Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Í viðtali við blaðið segir Yngvi Björnsson, deildarforseti tölvunarfræðideildar Háskólans í Reykjavík, að engin ein skýring sé á þessu. Í gegnum tíðina hafi áhuginn á faginu gengið í bylgjum og sé mikið bundin við umræðu og umfjöllun í samfélaginu hverju sinni. Alþjóðleg tæknifyrirtæki eins og Google, Facebook og fleiri, ýti undir áhugann, ásamt snjallsímaforritum og fleiri fylgifiskum framþróunar tölvutækninnar á undanförnum árum.
Yngvi segir þennan aukna fjölda í tæknigreinum ekki séríslenskt fyrirbæri heldur hluta af alþjóðlegri þróun.
Yngvi segir að einnig hafi það sýnt sig að tæknistörfin komi vel út á krepputímum, þá sé þrátt fyrir allt enn mikil eftirspurn eftir fólki með slíka sérþekkingu og það spili vafalaust inn í.
Fjöldi kvenna við tölvunarfræðideildirnar hefur einnig aukist. Árið 2009 voru konur 99 en eru nú 345. Það er aukning upp á 248,5 prósent á aðeins fimm árum.