Árið 1953 var dönskum lögum breytt þannig að konur og karlar ættu sama rétt til krúnunnar, aldur í beinan legg skyldi ráða. Þetta var gert í ljósi þess að elsta barn dönsku konungshjónanna, Friðriks IX og Ingiríðar drottningar var stúlka, Margrét Þórhildur. Konungshjónin eignuðust þrjár dætur en ekki son og þar að auki var þessi lagabreyting í takt við breytta tíma.
Árið 1952 hóf ungur hönnuður, Jacob Jensen, störf hjá teiknistofunni Bernadotte og Bjørn Industridesign A/S. Jacob þessi var nýútskrifaður úr Danska hönnunarskólanum, af iðnhönnunarbraut sem hinn þekkti arkitekt Jörn Utzon hafði sett á laggirnar. Jacob (fæddur 1926) hafði dottið út úr skóla og vann eftir það um skeið á bólsturverkstæði föður síns. Hann varð síðar enn þekktasti iðnhönnuður Dana, einkum vegna starfa sinna hjá Bang & Olufsen.
Fyrsta verk Jacobs Jensen á teiknistofu Bernadotte og Bjørns, var að teikna skál, ætlaða til alhliða nota í eldhúsi. Þetta var akkúrat um sama leyti og verið var að breyta að dönsku ríkisarfalögunum og Sigvard Bernadotti, sem var bróðir Ingiríðar danadrottningar fékk leyfi dönsku krúnunnar til að kenna skálina við Margréti ríkisarfa. Skálin fékk því nafnið Margretheskålen, Margrétarskálin.
Fyrirtækið Rosti, sem þá var tíu ára gamalt, tók að sér að framleiða Margrétarskálina. Skálin, sem var steypt í móti, var gerð úr sérstöku plastefni, melamíni, og hafði marga eiginleika umfram Bakelite efnið sem þá var mikið notað. Var miklu léttara og ekki jafn viðkvæmt. Skálarnar eru enn framleiddar úr þessu sama efni, það er ekki rétt að setja sjóðandi vökva í þær og þær eiga ekki erindi í örbylgjuofninn.
Sló strax í gegn
Engan, hvorki hönnuðinn, vinnuveitendur hans né Rosti fyrirtækið, hefur líklega grunað hvílíkt snilldar eldhúsáhald Jacob Jensen hafði skapað. Enn síður hefur þá grunað að 61 ári síðar hefðu selst næstum 50 milljónir skála. Hönnuðurinn sagði einhverntíma í viðtali að hann hefði kannski átt að tryggja sér eins og eina krónu af hverri seldri skál, en það væri nú auðvelt að vera vitur eftir á bætti hann svo við. Annars hefur hann ekki þurft að örvænta um afkomuna, er heimsþekktur hönnuður og ekki á horleggjunum eins og sagt er. Margrétarskálin er á nútímalistasafninu MOMA í New York, meiri upphefð getur ekki einni eldhússkál hlotnast.
Gúmmíhringur á botni og lok eina breytingin
Margrétarskálin var í fyrstu framleidd í fjórum litum, hvítum grænum, gulum og bláum og í fjórum stærðum. Núna eru stærðirnar 10 og litirnir að minnsta kosti 15. Formið á skálinni er algjörlega óbreytt en uppúr 1960 var farið að setja gúmmíkant, eða hring, neðan á botninn til að gera skálina stöðugri á borði.
Hvað er svona merkilegt við eina skál ?
Þessa spurningu lagði eitt dönsku blaðanna fyrir fólk á förnum vegi. Allir þekktu skálina og svörin voru á þá leið að hún væri einfaldlega svo þægileg og hægt að nota hana til margra hluta í eldhúsinu. "Alltaf eins og ný" sagði einn. Margir sögðu að hún falleg og maður fengi aldrei leiða á að hafa hana fyrir augunum. "Einfaldlega flott" sagði fólk. "Kjötbollurnar bestar ef þær eru hrærðar í Margréti" sagði einn sem spurður var. Einn úr hópi viðmælenda sagði að eini mínusinn við Margrétarskálina væri sá að hún væri ekki lengur framleidd í Danmörku. Framleiðslan var fyrir nokkrum árum flutt til Hollands.