Niðurstöður könnunar MMR á persónueiginleikum stjórnmálaleiðtoga á Íslandi hljóta að vera mörgum þeirra umhugsunar- og áhyggjuefni. Sigmundur Davíð og Bjarni Benediktsson koma vægast sagt illa út úr könnuninni. Að eingöngu fimm prósent aðspurðra telji þá í tengslum við almenning, og um 10 prósent að þeir standi vörð um hagsmuni almennings, bara hlýtur að vera þeim umhugsunarefni - svona þar sem þeir eiga að vera í þjónustu við þennan sama almenning. Ef þeir hugsa ekki alvarlega um þessi mál er það kannski bara einmitt staðfesting á niðurstöðum könnunarinnar.
En það eru ekki bara Sigmundur og Bjarni sem hljóta að taka þessar niðurstöður til sín. Árni Páll Árnason mælist miklu veikari en flokksbróðir hans og borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson. Árni rak lestina í nokkrum þeim flokkum sem spurt var um og skaraði hvergi fram úr. Eftir allt sem gengið hefur á hjá Árna Páli og Samfylkingunni undanfarna mánuði er kannski ekki skrýtið að hann mælist svona, en þetta er bara ekki í fyrsta skipti sem hann mælist veikur fyrir hjá almenningi.
Og svo er það óumdeildur sigurvegari í könnuninni, Katrín Jakobsdóttir. Hún trónir á toppnum í mörgum flokkum og virðist þykja mörgum kostum prýdd. Tæpur helmingur telur hana heiðarlega og standa við eigin sannfæringu, flestir nefndu hana sem stjórnmálamann sem er í tengslum við almenning og hún þykir ákveðin, leiðtogi og hún þykir skila árangri. Samt þarf Katrín að hafa töluverðar áhyggjur af stöðunni. Því þótt hún sé svona vinsæl þá virðist sáralítið af þessum vinsældum færast yfir á flokkinn sem hún stýrir.
Þær eru því margvíslegar krísurnar sem hrjá formenn þessara fjögurra flokka...