„Það hefur ekki [...] tekist að styrkja rekstrargrundvöll [Sjúkratrygginga] til að ná ásættanlegum árangri – að við getum rækt lögboðnar skyldur okkar með sóma og boðið samkeppnishæf laun. Við þessar aðstæður treysti ég mér því miður ekki til að bera ábyrgð á okkar mikilvægu verkefnum.“
Þetta skrifaði María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, í bréfi til samstarfsmanna sinna er hún tilkynnti þeim um þá ákvörðun sína að segja upp störfum. Stundin greinir frá þessu og í þeirri frétt kemur fram að Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hafi fengið uppsagnarbréf Maríu um miðja síðustu viku. Uppsögnin var að því er fram kemur í Stundinni einnig til umræðu á stjórnarfundi SÍ sl. fimmtudag.
Svandís Svavarsdóttir, þáverandi heilbrigðisráðherra, skipaði Maríu í stöðu forstjóra Sjúkratrygginga haustið 2018 eða fyrir rúmlega fjórum árum. Hún tók við embættinu af Steingrími Ara Arasyni.
María var áður framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landspítalans. Hún er læknir að mennt en hefur auk þess lokið MBA-námi með áherslu á stjórnun í heilbrigðisþjónustu og doktorsnámi í lýðheilsufræðum.
Heilbrigðisráðherra segir synd að sjá Maríu hverfa frá störfum
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra var inntur eftir viðbrögðum við uppsögn Maríu í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi síðdegis. Hann segist virða ákvörðun Maríu en að það væri synd að sjá hana hverfa frá störfum, hún hafi staðið sig vel, ekki síst á krefjandi tímum í gegnum heimsfaraldur.
„Það er komið nóg af stefnu- og ráðaleysi ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum,“ sagði Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sem spurði Willum hvað þurfi til svo að Framsóknarflokkurinn og Vinstri græn snúi frá sveltistefnu Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðismálum.
Willum svaraði með því að segjast binda vonir við að 100 milljón króna aukaframlag til Sjúkratrygginga Íslands muni skipta máli. „Við þurfum síðan vinna áfram að því að bæta kerfin og styrkja stofnunina í flókinni samningagerð.“