Samkvæmt vefsíðunni Oddschecker, sem heldur utan um veðmálastuðla helstu veðmálasíðna heims, kemst framlag Íslands í Eurovision, Unbroken, í flutningi Maríu Ólafsdóttur, upp úr seinni undanúrslitariðlinum í kvöld og inn í úrslit söngvakeppninnar. Með naumindum þó.
Íslenska lagið verður það níunda inn í úrslitin samkvæmt spá Oddschecker, en tíunda og síðasta lagið upp úr riðlinum verður framlag Póllands ef spáin gengur eftir. Sjö þjóðir þykja næsta öruggar inn í úrslitin samkvæmt veðbönkum; Svíar, Norðmenn, Aserar, Slóvenar, Lettar, Ísraelar og Kýpverjar. Auk Íslands munu fjórar aðrar þjóðir berjast hatrammlega um síðustu þrjú sætin í úrslitunum; Litháar, Pólverjar, Svartfellingar og Maltverjar.
Sænska lagið, Heroes í flutning Måns Zelmerlöw, er spáð fyrsta sætinu í riðlinum, en lagið þykir sömuleiðis mjög sigurstranglegt í sjálfum úrslitum Eurovision, sem fram fara á laugardaginn.
Telur íslenska lagið eiga ágætis möguleika
Baldvin Þór Bergsson er staddur í Vín til að fylgjast með Eurovision. Mynd: BÞB
Baldvin Þór Bergsson, einn fremsti sérfræðingur RÚV í Eurovision, er staddur í Vínarborg þar sem hann fjallar um ævintýri íslenska hópsins í söngvakeppninni. Hann er bjartsýnn á velgengni íslenska lagsins.
„Ég held að möguleikarnir séu ágætir en staðreyndin er sú að þetta er sterkur riðill. Í fyrra var Ísland í riðli með 14 öðrum þjóðum en nú eru það 17 lönd sem berjast um 10 sæti þannig að möguleikarnir eru minni. Við treystum hins vegar á stig frá Svíþjóð, Noregi, Bretlandi og Ástralíu að minnsta kosti og svo er nú líklegt að Eistar verði góðir við okkur. Að minnsta kosti hafa flytjendur þeirra verið duglegir að tala um það við íslenska fjölmiðlamenn að Ísland hafi verið fyrsta ríkið til að viðurkenna sjálfstæði þeirra.“
Þá telur Baldvin Þór að Ísland geti nánast reitt sig á stig frá Bretum og Áströlum, en þjóðirnar mega greiða atkvæði í kvöld. „Bretar hafa yfirleitt gefið okkur stig og kannski er tónlistarsmekkur þjóðanna svipaður. María hefur svo verið dugleg að hrósa ástralska flytjandanum og mæta í viðtöl við ástralska fjölmiðla þannig að það ætti að skila stigum.“
Slagurinn mun standa á milli Svía, Ítala, Rússa og Ástrala
Veðbankar eru ekki alveg á eitt sáttir um hvaða lag muni bera sigur úr býtum í úrslitum Eurovision-keppninnar, en ljóst þykir að baráttan um sigurverðlaunin muni standa á milli Svía, Ítala, Rússa og Ástrala.
Það blæs hins vegar ekki svo byrlega fyrir Maríu okkar Ólafsdóttur og félaga í íslenska hópnum samkvæmt veðbönkum, en eins og staðan lítur út í dag á Oddschecker er framlagi Íslands spáð hinu víðfræga 16. sæti í keppninni, og hefur lækkað um tvö sæti frá því í gær. Eins og kunnugt er stígur María á sviðið í Vín í kvöld, og viðbúið er að spá veðbankanna breytist ef flutningur framlags Íslands gengur vel.