Við lokun markaða á föstudag var markaðsvirði Síldarvinnslunnar 163,9 milljarðar króna. Þegar Kauphöll Íslands var lokað í gær var það 175,9 milljarðar króna. Hlutabréf í félaginu höfðu hækkað um 7,4 prósent innan dags og 12 milljarðar króna bæst við virði Síldarvinnslunnar.
Beinn hlutur Samherja, stærsta eiganda Síldarvinnslunnar með 32,6 prósent eignarhlut, er nú 57,3 milljarða króna virði. Hluturinn hækkaði um 3,9 milljarða króna bara í dag. Hlutur Kjálkanes, næst stærsta eiganda Síldarvinnslunnar með 17,4 prósent hlut, jókst á sama tíma úr 28,5 milljörðum króna í 30,7 milljarða króna, eða um 2,2 milljarða króna.
Ástæða mikillar hækkunar á virði bréfa í Síldarvinnslunni, sem var úr öllum takti í Kauphöll Íslands í gær, var tilkynning sem send var út á sunnudagskvöld um að Síldarvinnslan væri að kaupa útgerðarfyrirtækið Vísi í Grindavík á 31 milljarð króna. Kaupverðið verður greitt þannig að sex milljarðar króna verða greiddir í reiðufé, 14 milljarðar króna verða greiddir með nýju hlutafé í Síldarvinnslunni og ellefu milljarða króna vaxtaberandi skuldir verða teknar yfir. Eigendur Vísis í dag eru systkinahópur úr Grindavík. Sá sem á stærstan hlut er Pétur Hafsteinn Pálsson, forstjóri Vísis, sem á 20,14 prósent. Í hans hlut munu koma rúmir fjórir milljarðar króna við söluna. Fjórar systur hans og einn bróðir áttu að fá 3,2 milljarða króna í reiðufé og hlutabréfum við söluna. Þar er hins vegar miðað við meðalgengi bréfa síðustu fjóra mánuðina, sem var 95,93 krónur á hlut. Eftir hækkanir dagsins í dag hefur virði þeirra hlutabréfa sem systkinin fá aukist um rúmlega einn milljarð króna.
Kaupin eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins, því að áreiðanleikakönnun skili fullnægjandi niðurstöðu og að hluthafafundur Síldarvinnslunnar samþykki kaupin.
Þetta eru önnur risaviðskipti Síldarvinnslunnar á skömmum tíma. Fyrir mánuði síðan var tilkynnt um kaup á 34,2 prósent hlut í norska laxeldisfélaginu Arctic Fish Holding AS fyrir um 13,7 milljarða króna. Það félag á allt hlutafé í Arctic Fish ehf. sem er eitt af stærstu laxeldisfyrirtækjum á Íslandi og rekur eldisstöðvar á Vestfjörðum þar sem félagið er með rúmlega 27 þúsund tonna leyfi fyrir eldi í sjó.
Markaðsvirðið hækkað um 75 milljarða frá skráningu
Síldarvinnslan var skráð á markað í maí í fyrra. Miðað við útboðsgengi var virði hennar 101,3 milljarðar króna við skráningu. Það hefur hækkað gríðarlega síðan þá, eða um tæpa 75 milljarða króna.
Sú mikla hækkun sem varð á bréfum í félaginu hófst af alvöru í fyrrahaust í aðdraganda þess að tilkynnt var um úthlutun á 904 þúsund loðnukvóta, þeim mesta sem úthlutað hafði verið í tvo áratugi. Síldarvinnslan var á meðal þeirra útgerða sem fengu mest úthlutað, eða 18,5 prósent alls kvóta sem fór til innlendra aðila.
Í skráningarlýsingu Síldarvinnslunnar kom fram að Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, Axel Ísaksson og Jón Már Jónsson, sem allir eiga sæti í framkvæmdastjórn Síldarvinnslunnar væru eigendur félagsins Hraunlóns. Þeir keyptu félagið í lok árs 2020 á 640 milljónir króna en Hraunlón átti þá 27,5 milljónir hluta í Síldarvinnslunni.
Þegar Síldarvinnslan var skráð á markað hafði virði hlutarins hækkað upp í 1.595 milljónir króna á fjórum mánuðum, eða um 955 milljónir króna.
Í hlutafjárútboði sem fór fram í aðdraganda skráningar Síldarvinnslunnar á markað ákvað Hraunlón að selja 37 prósent af bréfum sínum. Fyrir það fékk félagið 608 milljónir króna. Því má segja, þegar kaupverðið á heildarhlutnum í lok árs 2020 er dregið frá því sem fékkst fyrir það selt var í hlutafjárútboðinu í fyrravor, að eigendur Hraunlóns hafi greitt 32 milljónir króna fyrir þann hlut sem þeir halda á í dag.
Það er sem stendur um eitt prósent hlutur í Síldarvinnslunni sem metinn er á tæplega 1,8 milljarða króna.
Átti 55 milljarða króna í eigið fé um síðustu áramót
Síldarvinnslan hagnaðist um 11,1 milljarða króna á síðasta ári, ef miðað er við meðalgengi Bandaríkjadals en félagið gerir upp í þeirri mynt. Af þeirri upphæð féllu um þrír milljarðar króna til vegna söluhagnaðar sem myndaðist þegar SVN eignafélag, stærsti eigandi tryggingafélagsins Sjóvár, var afhentur fyrri hluthöfum Síldarvinnslunnar áður en félagið var skráð á markað í maí í fyrra.
Stjórn Síldarvinnslunnar lagði til við aðalfund að greiddur yrði arður til hluthafa vegna reikningsársins 2021 upp á 3,4 milljarða króna.
Félagið greiddi 531 milljónir króna í veiðigjöld í fyrra og tæplega 2,1 milljarð króna í tekjuskatt. Því námu samanlagðar greiðslur vegna veiðigjalds og tekjuskatts í ríkissjóð um 2,6 milljörðum króna, eða 76 prósent af þeirri upphæð greiddur var hluthöfum í arð og 23 prósent af hagnaði Síldarvinnslunnar vegna síðasta árs.
Rekstrartekjur útgerðarrisans voru 30,1 milljarður króna og EBITDA-hagnaður, hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnskostnað og skatta, var 10,7 milljarðar króna.
Í ársreikningi félagsins segir enn fremur að eigið fé þess hafi verið um 55,1 milljarðar króna í lok árs í fyrra miðað við gengi krónu gagnvart Bandaríkjadali í lok árs og eiginfjárhlutfallið 67 prósent.
Vert er að taka fram að aflaheimildir sem félagið hefur til umráða eru færðar á nafnvirði í efnahagsreikningi. Upplausnarvirði þeirra getur verið mun hærra.