„Ég býð mig fram til forystu og við sækjumst bæði eftir sama sæti,“ sagði Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, þegar Egill Helgason, umsjónarmaður Silfursins, sagði hana vera að bjóða sig fram gegn Eyþóri Arnalds núverandi oddvita flokksins í borginni. „Það er styrkleikamerki hjá stórum flokki að fleiri en einn sækist eftir að leiða.“
Ekki hefur enn verið ákveðið hvenær prófkjör flokksins í Reykjavík fer fram en miðað er við að það verði í lok febrúar. Kosningarnar fara svo fram um miðjan maí.
„Ætlarðu að berjast fyrir sæti þínu?“ spurði Egill svo Eyþór sem var einnig gestur Silfursins. „Verðu maður ekki að gera það?“ svaraði Eyþór. Hann segist hafa staðið fyrir ákveðnum sjónarmiðum í borgarmálunum og segist skynja núna að það sé kominn fram „miklu breiðari kór“ sem sé sammála um það að margt þurfi að laga í borginni. „Ég tel að ég hafi náð þar hljómgrunni meðal margra aðila í þjóðfélaginu.“ Hann sagði að nú væri „komið að því að breyta í vor“. Fólk væri komið með „óþol“ og að Sjálfstæðisflokkurinn væri „eina hreyfiaflið sem getur breytt“.
Sjálfstæðisflokkurinn hlaut 31 prósent atkvæða í síðustu borgarstjórnarkosningum en endaði í minnihluta. Ef svipuð niðurstaða yrði upp á teningnum þyrfti flokkurinn að leita samtarfs, vilji hann komast til valda. Eyþór segist ekki útiloka samstarf við neinn en nefnt hefur verið að Framsóknarflokkurinn, kæmi hann sterkt inn í kosningum í vor líkt og hann gerði í þingkosningunum nýverið, gæti orðið fyrsta val. Eyþór sagði að sjá yrði til hver yrði í framboði til hvers flokks til að sjá „hverjir geta dansað saman“.
Egill spurði Hildi hver væri meiningarmunurinn á henni og Eyþóri. „Telur þú þig geta fiskað betur en hann?“
Hildur sagðist telja að það þyrfti ekki að vera „einhver stórkostlegum meiningarmunur“ þótt fólk væri að sækjast eftir sama sæti. „Það sem fólk þarf þá að gera upp við sig er hvor aðilinn er með meiri aðlaðandi framtíðarsýn, hvor sé líklegri til að vinna kosningar og hvor aðilinn sé líklegri til að leiða okkur inn í meirihlutasamstarf.“
Egill spurði þá hvort hún teldi sig líklegri til alls þessa en Eyþór.
„Ég býð mig fram vegna þess að ég tel mig geta gert allt þetta,“ svaraði Hildur. „Ég er ekki komin hingað til að hallmæla vini mínum Eyþóri, við erum samherjar í Sjálfstæðisflokknum. En við sækjumst eftir sama forystusæti og um það snýst málið. Heila málið er auðvitað að vinna kosningar og komast í meirihluta.“
Hún sagði að eftir síðustu kosningar hafi aðrir flokkar lokað á samstarf við Sjálfstæðisflokk í borgarstjórn, jafnvel þótt flokkurinn hafi unnið kosningasigur. „Það er staða sem við getum ekki fundið okkur aftur í. Við þurfum að vera opin í alla enda. Við þurfum að geta myndað meirihluta með fólki sem á með okkur málefnalegan grundvöll og að við getum tekið yfir borgina. Það er auðvitað markmið okkar sjálfstæðismanna. Okkur finnst kominn tími á það fyrir löngu síðan að við höfum einhver áhrif í þessari borg.“